Stangaveiðitímabilið 2020 loksins að hefjast!

Núna er innan við vika í að tímabilið hefjist og þrátt fyrir áföllin sem hafa á okkur dunið, hvað er þá betra en að standa við Íslenska veiðiá og gleyma stað og stund? Vefsalan hefst í næstu viku þar sem hægt verður að sjá alla lausa daga af ársvæðum SVFR en viljum við benda á að hægt er að senda póst á [email protected] og hringja á skrifstofuna í síma 5686050, þá sér í lagi fyrir daga í næstu viku. Við opnum aftur fyrir símann klukkan 08:00 mánudaginn 30. mars en erum ennþá með skrifstofuna lokaða.

Tvær frábærar silungsveiðiár opna núna 1.apríl og viljum við sérstaklega hvetja veiðimenn til þess að merkja okkur á Instagram og Facebook af veiði og stemmningu!

Varmá:
Áin er tilvalin til að leiða unga veiðimenn inn í undraheim stangaveiðinnar og fyrir þá sem vilja taka hreinlega hrollinn úr sér snemma á tímabilinu í frábærri á stutt frá höfuðborgarsvæðinu.Vatnasvæði Varmár er um margt sérstakt en þar má finna allar tegundir íslenskra ferskvatnsfiska en sjóbirtingurinn er þó alls ráðandi á svæðinu. Veiðin var frábær á síðasta ári og áin að fá sterkar göngur af fallegum geldfiski sem og sjóbirtingum upp að 85 sm. Áin var vel stunduð og má með sanni segja að fleiri aðdáendur bætast við ár hvert. Þetta er frábær kostur fyrir þá sem vilja komast í tæri við sjóbirtinga í öllum stærðum og gerðum ásamt staðbundnum urriðum. Fjöldi stanga í ánni eru sex talsins.

Leirvogsá:
Mjög góð sjóbirtingsveiði er í ánni og er tímabilið frá 1.apríl – 30.maí. Viðtökurnar hafa verið frábærar og ekki seinna en vænna um að bóka dag sem allra fyrst enda rjúka dagarnir út eins og heitar lummur. Þetta er tveggja stanga á og eru þær seldar saman. Tilvalið til þess að skjótast í veiði við bæjarmörkin og eiga góða stund við fallega á í vorbúningi. Veiðistaðirnir eru fjölbreyttir með stuttum stríðum strengjum og fallegum breiðum þar sem hægt er að beita flestum þeim afbrigðum fluguveiðinnar sem til eru í bókinni.

Það er kominn tími á rífa sig upp, græja veiðibúnaðinn, hnýta nokkrar flugur um helgina og skella sér í veiði eftir helgi!

Með veiðikveðju
SVFR