Söguleg opnunarvakt í Mývatnssveit

Í dag var opnunardagur Laxár í Mývatnssveit, veðrið var dásamlegt og var rúmlega 15 stiga hiti þegar menn fóru út til veiða.

Það komu hátt í 200 fiskar á land og veiddust þeir á öllum svæðum en fiskurinn kemur einstaklega vel undan vetri og voru þeir flestir frá 50-60cm. Áhugavert er að segja frá því að það veiddist einstaklega mikið af bleikju og voru sumar þeirra mjög vænar. Geirastaðaskurður var aflahæsti veiðistaðurinn og gaf 60 fiska sem er ótrúlegt. Sérstaka athygli vakti að Skriðuflói og Vörðuflói gáfu enga fiska en þeir eru með betri veiðistöðum í Laxá.

Flestir fiskarnir veiddust á púpur en einnig straumflugur en gaman er að segja frá því að það kom einn fiskur á fluguna Hólmfríði. Fyrir þá sem ekki vita er það fluga sem Kolbeinn Grímsson nefndi í höfuðið á Hólmfríði sem er staðarhaldarinn í Hofi. Þær púpur sem gáfu best voru BAB, Holan og Pheasant Tail.

Það hefur verið sami hópur í opnuninni í tæp 15 ár og þeir hafa aldrei lent í annari eins veiði og í morgun. Það er verulega góð vatnsstaða í ánni og er hún afar tær.

Við viljum þakka Bjarna Júlíussyni fyrir fréttirnar en það verður áhugavert að sjá hversu marga fiska hollið endar með.


Árni Friðleifsson með fallegan urriða, aðsend mynd frá Jóhanni Jóni.

Hafþór Bjarni með fallegan fisk úr Brotaflóa.


Bjarni Júlíusson með 57cm urriða sem hann fékk í Sauðavaði.