Eins og flestum er orðið kunnugt þá er orðið skylda að skila inn veiðiskráningum á rafrænu formi.
Síðustu ár höfum við stuðst við form á vefnum fyrir Elliðaárnar, Korpu, Leirvogsá og Þverá í Haukadal.
Nú hefur SVFR í sameiningu við þau veiðifélög sem það kjósa tekið upp samstarf við Angling IQ um að skráning á afla á nokkrum ársvæðum fara í gegnum þeirra kerfi og verða upplýsingar úr þeim ám því aðgengilegar í rauntíma á vefnum anglingiq.com. Fyrirkomulagið er tvennskonar.
Í Langá, Haukdalsá og Sandá og fer skráning fram í spjaldtölvu í veiðihúsunum og þá er engin krafa um að veiðimenn séu skráðir notendur í appinu þeirra. Skráðir notendur í Angling IQ geta hins vegar skráð aflann beint úr símtækjum sínum í gegnum appið. Við mælum sterklega með því að notendur séu skráðir og með appið í símanum til að fylgast betur með og fullnýta möguleika sem kerfið býður upp á.
Varðandi skráningu í Elliðaám, Korpu og Leirvogsá munu veiðimenn sömuleiðis geta skráð í gegnum símtækin sín og þurfa ekki að vera notendur að appinu. Hægt er að fara á svfr.is/veidibok eins og áður og nálgast þar form fyrir hverja á fyrir sig.
Við vonum svo sannarlega að fleiri veiðiár á okkar vegum eigi eftir að bætast við í þetta gagnlega umhverfi.
Með þessum breytingum þá mun upplýsingaflæði streyma mun hraðar úr ánum beint til áhugasamra auk þess sem nýjustu tölur á angling.is ættu að renna strax í gegn án tafa.
Hér má nálgast appið fyrir áhugasama:
Sæktu Angling iQ appið frítt í dag á App Store eða Google Playstore.
Hér fyrir neðan má t.d. sjá hvernig fyrsti dagurinn var í Langá á Mýrum en forritið býður upp á marga möguleika til að skoða tölfræði, jafnt yfir ársvæðin, flugur og veiðistaði.
Með von um að veiðifólk taki þessum breyttu skráningaraðferðum fagnandi og hjálpi okkur að skrá alla veidda fiska í sumar!
Með veiðikveðju,
SVFR