Leirvogsá – Sjóbirtingsveiði frá 1. apríl til 30.maí

Þá er loksins kominn tími á að tilkynna að vorveiðin í Leirvogsánni hefst þann 1.apríl og lýkur 30.maí. Svæðið hefur verið stundað vel og hefur skapað sér gríðarmikilla vinsælda. Þetta er frábær kostur fyrir stangaveiðifólk sem vilja njóta útiverunnar við fallega á og taka úr sér hrollinn, nógu erfiður hefur þessi vetur verið og þungir tímar sem hafa tekið á okkur öll. Mikil eftirspurn hefur verið eftir vorveiði í Leirvogsá enda fallegir sjóbirtingar og góð veiði oft á tíðum. Leirvogsá er með einkar sterkan sjóbirtingsstofn og hafa náðst birtingar þarna upp að 15 pundum, algeng stærð á sjóbirtingnum í ánni er 60-70 sm.

Seldar eru 2 stangir saman á tímabilinu. Verðinu er stillt í hóf og kostar dagurinn 12.000 kr stöngin til félagsmanna, 24.000 kr. báðar stangir, með 20% félags afslætti en 15.000 kr fyrir aðra. Veitt er daglega frá 07:00-13:00 og svo aftur frá 15:00-21:00. Veitt er á flugu eingöngu og öllum fiski sleppt. Veiðisvæðið nær frá veiðihúsinu í landi Norður Grafar og niður að ós. Ágætis aðstaða er fyrir veiðimenn og í því er rafmagn, heitt vatn, eldunaraðstaða og vatnssalerni.

Við hefjum söluna kl.12.00 á morgun föstudaginn 27. mars, fyrstur kemur fyrstur fær. Það má hringja í okkur í síma 568 6050, senda okkur póst á [email protected] þegar skrifstofan opnar á morgun. Um leið og vefsalan kemst í gagnið kynnum við hana til leiks.

Ath: Þeir niðurgöngu laxar sem veiðast skal fara einkar varlega með og halda þeim mest í vatni sem kostur er enda ekki vænlegir til myndatöku. Öllum fiski skal sleppt.

Með veiðikveðju