Fréttir af veiðisvæðum SVFR

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að sumarið hefur verið undir væntingum til þessa. Sumir tala um slæma seiðaárganga 2014 og ekki er vatnsleysið að hjálpa til. Hinsvegar, horfir það til betri vegar og verður fróðlegt að sjá hvað gerist á næstu 10 dögum þegar “prime time” brestur á og vonandi frískast upp á þetta ef veðurspár ganga eftir. Urriðasvæðin fyrir norðan hafa verið ótrúlega góð, Laxá í Mývatnssveit, Laxá í Laxárdal, Staðartorfa og Múlatorfa. Svæðin hafa skilað ánægðum veiðimönnum alls staðar að enda hefur þjónusta og aðstaða fyrir veiðimenn verið bætt gríðarlega. Þá er sjóbleikjan fyrr á ferðinni þetta árið og veiðifólk að gera flotta veiði í Flókadalsá í Fljótum og Gufudalsá en við skulum renna yfir þetta..

 

Laxveiði:

 

Elliðaárnar: 153 laxar hafa verið færðir til bóka. Árnar eru sigurvegarar alls vesturlands til þessa og þótt víða væri leitað og þá veitt á 4-6 stangir. Sumarið til þessa hefur verið hálf ótrúlegt því árnar eru að skila gríðarlega mikið af fallegum stórfiski. Um 350 laxar eru farnir upp teljarann við Rafstöðvarveg. Áin mun vera nærri meðallagi að öllum líkindum.

 

 

Ragnar Snorri Pétursson með fallega 84 cm hrygnu úr Grófarkvörn í Elliðaánum í fyrradag

 

 

Langá: Yfir 600 laxar eru gengnir upp teljarann og má áætla að upp Skuggafoss sé komið 20-30% meira í ánna, þannig ef skotið er á það mætti vera að um 700-800 laxar eru í ánni. Þá eru 70 laxar gengnir upp á fjall.Sterk ganga sást við neðstu veiðistað árinnar í gær en 51 lax hafa verið færðir til bókar. Á síðustu 5 dögum hafa yfir 250 laxar gengið í gegnum teljarann við Skugga. Þá er staðan þannig í Langá að mun meira af tveggja ára fiski er að sjást og er ekki hægt að tala um Langá sem eingöngu “smálaxaá” enda hefur verið unnið gott starf við sleppingu á stórfiskum eftir að maðkurinn var tekinn upp úr ánni. Það sjá það flestir að það er að skila sér.

 

Veiðimaður með 75 cm hrygnu úr Neðri-Hvítstaðarhyl rétt áður en henni var sleppt stuttu síðar

 

Haukadalsá: Opnunarhollið landaði 11 löxum – í dag eru komnir 39 laxar í bók. Menn bíða eftir rigningunni eins og víða.

Laugardalsá: 88 laxar eru komnir í ánna samkvæmt  http://www.riverwatcherdaily.is/Migration en þar af einn ógvænlega stór fiskur sem menn geta litið augum á ef þeir fara inn á tengilinn”.Sá fiskur er 111 cm og má áætla að hann er um 30 pundin. Það ætti að vera góð gulrót fyrir veiðimenn á leiðinni í ánna

Bildsfell: Menn hafa farið þarna og bæði sett í og misst fiska – 90 cm hrygna veiddist þar í morgun á Neðra horni – gullfalleg hrygna. Þá var gott líf í Sakkarhólma og laxar að sýna sig víða.

Straumfjarðará: 26 löxum hefur verið landað og áin gríðarlega vatnslítil eins og staðan er víða – Veðurspár lofa þó góðu fyrir næstu daga.

Gljúfurá í Borgarfirði; Mjög vatnslítil og áin hefur verið þetta 18 gráðu heit, það er aldrei vænlegt til árangurs en 47 laxar eru gengnir í gegnum teljarann og eitthvað að skríða í gegn – 6 í morgun t.a.m.

Korpa/Úlfarsá: Það er eitthvað að glæðast lífi þar en alls gengu 14 laxar þar upp í morgun. Alls eru 60 laxar farnir í gegnum teljarann og áin hefur verið lítið stunduð á. Þetta ætti veiðifólk að skoða enda mjög ódýr laxveiði við bæjarmörkin.

Silungsveiði: 

Laxá í Laxárdal: Það hefur verið nóg um að vera hjá Bjarna Höskuldssyni staðarhaldara. Þarna hafa sjaldan veiðst eins margir stórfiskar og er meðalstærðin um 60-65 cm. Áin er að safna stórum aðdáendahópi hratt og örugglega, það skal engann undra því þarna er aðbúnaður orðinn 1.flokks ásamt frábærri veiði í stærð fiska. Heyrðum við af veiðimönnum sem veiddu á 8 stangir 31 stórurriða á einum degi. Þennan dag, 4. júlí voru veiddir 24 á þurrflugu, af þessum 31 voru 25 urriðar yfir 60 cm og þ.á.m. tveir 70 cm, einn 71 cm og annar 72 cm.. Þetta eru fiskarnir sem bíða enda öllu sleppt.

 

 

Mynd tekin í fyrradag af erlendum veiðimanni í Laxárdal

 

 

Laxá í Mývatnssveit: Svæðið hefur verið algjörlega frábært og upplifun sem enginn veiðimaður má missa af enda verður þetta fastur liður hjá þeim sem prófa þetta og já, laxveiðimógullarnir líka. Þarna fær maður beint í æði íslenska náttúru með fiskum eru ógnar sterkir og barátturnar eftir því. Algengt er að stöngin sé að skila 5-10 urriðum á dag og hefur verið þannig frá því opnun og urriðanum fer stækkandi en mikið eru um 55-65 cm fiskum þetta árið.

Mynd fyrr í sumar af fyrrverandi framkvæmdarstjóra SVFR, Ara Hermóði Jafetssyni

 

Gufudalsá: Fínasta bleikjuveiði hefur verið þar og heyrðum við af veiðimönnum þar fyrir nokkrum dögum sem lönfuðu 22 bleikjum á milli 40-60 cm. Helstu veiðistaðir voru Affal og Miðós.

Núna er bara að vona það besta og hvet ég veiðifólk til þess að fylgjast vel með því vissulega hefur það sést að þetta byrji með hvelli í laxinum. Við á skrifstofunni erum tilbúin að aðstoða ykkur með veiðileyfin enda veiðitímabilið rétt að byrja. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist.

Góðar stundir við bakkann