Fræðslukvöldin að hefjast!

Félagsmenn og aðrir áhugamenn um veiði geta tekið gleði sína á ný enda eru Fræðslukvöld SVFR loksins komin í gang aftur.

Fyrsta kvöldið og reyndar öll kvöldin verða haldin á þeim rómaða stað Ölver í Glæsibæ og verður fyrsta kvöldið haldið næsta fimmtudag þann 3. mars. Hvert kvöld verður með ákveðnu þema og verður sjóbirtingur það sem fyrst verður fjallað um. Húsið opnar kl 20:00.

Það eru tveir vaskir og vanir veiðimenn sem þekkja sjóbirtingsveiðar vel sem byrja á þessu fyrsta kvöldi en það eru þeir Pálmi Gunnarsson söngvari og Hrafn H. Hauksson en báðir hafa þeir einstakan áhuga á sjóbirtingsveiðum. Pálmi hefur lengi verið einn ötulasti talsmaður Veitt og Sleppt til að vernda þennan einstaka fisk og hefur á sínum veiðiárum við mörg af vinsælustu sjóbirtingssvæði landsins orðið einn af okkar bestu. Hrafn er einn af þessum veiðimönnum yngri kynslóðarinnar sem er best kallaður undrabarn en þeir eru ekki margir sem hafa jafn góð tök á því að veiða þessa styggu fiska eins og hann.

Á kvöldinu verður eins og venjan er glæsilegt happdrætti að í lokin og verða vinningar frá Vesturröst, Veiðivon, Veiðifélaginu, Veiðiportinu, Flugubúllunni og Veiðiflugum á hlaðborði vinninga á þessu kvöldi og reyndar öllum kvöldunum sem framundan eru. Auk þess eru vinningar frá SVFR og Veiðikortinu. Á þeim Fræðslukvöldum sem eru framundan verður meðal annars sérkvöld um lax og silungsveiði þar sem er farið almennt yfir aðferðir til betri árangurs í veiði.

Það eru allir velkomnir á Fræðslukvöldin.

By SVFR ritstjórn Félagsstarf Fréttir