Það var við hátíðlega athöfn við veiðihús Elliðaána sem Borgarstjóri Reykjavíkur, Dagur B. Eggertsson tilkynnti að Reykvíkingur ársins 2017 er Anna Sif Jónsdóttir. Hún fékk þann heiður að vera fyrst til að renna fyrir laxi í Elliðaánum 2017 og opna þar með ána. Eins og venjan er var fyrsta rennsli í Sjávarfossinn. Eftir að afætur höfðu hreinsað öngulinn tvisvar fór Ásgeir Heiðar leiðsögumaður með Önnu á Breiðuna þar sem hún setti strax í og landaði fyrsta laxinum úr Elliðaánum sumarið 2017 og var það fallegur smálax.
Eftir myndatökur og sjónvarpsviðtöl renndi Anna maðkinum aftur í ána og að þessu sinni rétt við göngubrúna, í Brúarkvörnina. Leið ekki á löngu fyrr en annar lax var kominn á og var honum landað af sömu fagmennsku og þeim fyrsta. Tveir komnir á land og klukkan rétt 7.30.
Med det samme var annar veiðimaður kominn með hann á í Sjávarfossinum og var honum einnig landað skömmu síðar. Þrír komnir á land 7.40. Þá var röðin komin að Borgarstjóra og naut hann leiðsagnar frá Ásgeiri Heiðari eins og svo oft áður. Ásgeir óð nánast upp á axlir við að koma Borgarstjóra í færi og renndu þeir maðkinum í Breiðuna. Það var svo sem ekki að spyrja að því, Borgarstjóri var kominn með hann á á innan við 5 mínútum. Fjórir laxar á land fyrir kl. 8.
Þegar þarna var komið við sögu þurfti undirritaður að opna skrifstofu og skrifa fréttakorn um hvernig þetta gekk allt saman fyrir sig. Semsagt, fjórir laxar á land á fyrsta klukkutímanum, tveir á Breiðunni, einn í Brúarkvörn og einn í Sjávarfossi. Töluvert er af fiski á svæðinu og útlitið er gott fyrir sumarið. Við óskum félagsmönnum öllum til hamingju með daginn og færum ykkur fréttir af öðrum opnunum þegar fréttir berast til skrifstofu.
Með veiðikveðju,
Stjáni Ben – Sölustjóri SVFR