Stangaveiðifélag Reykjavíkur (SVFR) harmar þá atburðarrás sem hefur verið í gangi síðustu daga er leitt hafa til þess að Alþingi hefur breytt lögum um fiskeldi á þann hátt að ráðherra sé heimilt að gefa út rekstrarleyfi til bráðabirgða til allt að 20 mánaða. Hefur Alþingi nú sett skýrt fordæmi í þá veru að unnt sé að komast hjá niðurstöðum sjálfstæðar úrskurðarnefndar með skyndilagasetningu. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur það lögskipaða hlutverk að hafa fullnaðarúrskurðarvald á stjórnsýslustigi vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Hefur Alþingi með lagasetningu þessari ákveðið að náttúran skuli ekki njóta vafans eins og þó er kveðið á um í lögum um náttúruvernd. Þá er ennfremur mælt fyrir um það í 1. gr. fiskeldislaga, að koma eigi í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra og tryggja hagsmuni þeirra sem nýta slíka stofna. Þá er ennfremur mælt fyrir um það, að við framkvæmd laganna skuli þess ávallt gætt að sem minnst röskun verði á vistkerfi villtra fiskistofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra sé ekki stefnt í hættu. Sjókvíaeldi á laxi af norskum stofni ógnar ekki bara íslenskum laxfiskastofnum heldur einnig íslenskri náttúru. Það að frumvarp af þessu tagi renni í gegnum Alþingi Íslendinga vegna pólitísks þrýstings er ekki bara áhyggjuefni heldur ótækt í lýðræðisríki.
Þá er vert að vekja á því athygli, að ekki alls fyrir löngu voru lagðar fram hugmyndir Hafrannsóknarstofnunar um svonefnt 3.000 tonna ,,tilraunaeldi“ í Ísafjarðardjúpi. Standa engin rök til slíkrar tilraunar enda fullljóst að markmiðið með slíkri ,,tilraun“ er að fara í kringum áhættumat um erfðamengun sem hafði réttilega lokað fyrir eldi frjórra norskra laxa í opnum sjókvíum í Ísafjarðardjúpi. Fyrir liggur að Skipulagsstofnun lagðist gegn því að frjóir laxar yrðu notaðir við ,,tilraunina“ en í framhaldinu dróg stofnunin álitið til baka, að því er virðist vegna pólitísks þrýsting. Það er með öllu ótækt að lög og reglur séu virtar að vettugi í því skyni að þóknast öflugum þrýstiöflum á kostnað íslenskrar náttúru.
Það er mikilvægt að fram fari málefnaleg umræða um eldi í opnum sjókvíum og að andstæð sjónarmið fái að heyrast. Málsmeðferð Alþingis ber því hins vegar engin merki. Í engu má gera lítið úr því að fiskeldi getur verið mikilvægt í atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni og þá sérstaklega á Vestfjörðum, eins og skilmerkilega hefur komið fram í umræðu síðustu daga. Hins vegar er málum þannig háttað að tekjur af nýtingu ómengaðra íslenskra fallvatna með laxastofnum eru einnig mikilvægur þáttur í að byggð geti haldist í samfélögum sem eiga undir högg að sækja, samfara hnignun hefðbundinna landbúnaðargreina. Á bilinu 1.700-1.800 lögbýli hafa tekjur af lax- og silungsveiðihlunnindum og þau skapa um 1.200 ársstörf í hinum dreifðu byggðum landsins. Byggðum sem líka hafa átt undir högg að sækja og eru umrædddar tekjur raunar undirstaða fyrir búsetu í mörgum sveitum landsins. Laxeldi í opnum sjókvíum ógnar þessum störfum og tekjum og það er undarleg aðferðafræði að byggja upp atvinnu á einum stað en eyða henni annars staðar. Þá er það raunar aðalatriðið að verndun íslensks lífríkis og náttúru er að öllu leyti virt að vettugi. Það eru ekki bara laxveiðimenn og veiðiréttarhafar sem standa í þessari baráttu, líkt og ýmsir þeir sem eru fylgjandi opnu sjókvíaeldi vilja meina, heldur stór hluti landsmanna sem vill færa komandi kynslóðum hina stórkostlegu íslensku náttúru án þess að á hana hafi verið gengið með freklegum hætti.
Jón Þór Ólason
Formaður SVFR