Vorveiði að hefjast í Elliðaánum!

Vorveiðin að hefjast í Elliðaánum

Vorveiðin í Elliðaánum hefst á morgun, 1. maí, en þá egna veiðimenn fyrir silung á efri parti Elliðaánna. Veiðisvæðið er frá Höfuðhyl sem er efsti veiðistaðurinn í ánum og niður í Hraun sem er spölkorn ofan við Vatnsveitubrúna. Veiðileyfi eru seld hálfan dag í senn, morgunvaktin er frá kl. 7 til 13 og síðdegisvektin er frá 15 til 21.

Vorveiðin fer oft mjög líflega af stað og er efsti hlutinn venjulega gjöfulastur. Á efsta hluta árinnar eru tvö svæði í skiptingu, en frjálst svæði er frá Heyvaðshyl og niður í Hraun. Stangirnar tvær sem leyfðar eru í vorveiðinni skipta með sér svæðunum á klukkustundar fresti. Frjálsa svæðið er hins vegar alltaf opið fyrir báðar stangirnar. Gildir þar reglan; fyrstur kemur – fyrstur fær.

Það er einkum urriði sem gín við flugum veiðimenna í vorveiðinni og er hann venjulega í góðum holdum og oft veiðast vænir fiskar. Vinsælasta flugan í vorveiðinni er að líkindum Pheasant Tail í stærðinni 14, en einnig hafa straumflugur oft komið sterkar inn, svo sem Black Ghost, Dentist og Rektor svo dæmi séu nefnd.

Elliðaárnar eru í fínu vatni þessa dagana og hlýindin undanfarna daga auka mönnum bjartsýni. Það verður enginn svikinn af því að eyða dagsparti á bökkum Elliðaánna í vorblíðunni.

Vekjum athygli á lausum dögum í vefsölunni.

 

Með veiðikveðju,

SVFR

By admin Fréttir