Það er óhætt að segja að á eftir lóunni þá séu árnefndir SVFR skýrt merki um að vorið sé á næsta leyti.
Nú eru nefndirnar að vakna úr vetrardvalanum og farnar að huga að því að gera svæðin tilbúin fyrir veiðimenn.
Við tókum hús á 2 árnefndum sem eru komnar á fullt, árnefnd Gljúfurár vinnur nú hörðum höndum að því að bæta aðgengi veiðimanna upp í gljúfrum.
Hér að neðan eru myndir sem voru teknar af árnefndarkonu að bora fyrir festingum í gljúfrunum, og af þessum myndum að dæma þá sannast hið fornkveðna “Hvað er svona merkilegt við það að vera karlmaður.”
Borað í klöpp.
Önnur árnefnd sem við tókum hús á er árnefnd Langár, þar er allt á fullu við að koma nýrri viðbyggingu við veiðihúsið í stand fyrir sumarið.
Árnefndarfólk hefur verið duglegt að mæta og leggja hönd á plóg í þeim fjölmörgu verkefnum sem þarf að klára fyrir opnun þann 19 júní, hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir af framkvæmdum, ljóst að það mun ekki væsa um veiðimenn sem heimsækja Langá í sumar.
Svo fréttum við af vösku fólki í árnefndum Laxár í Mývatnssveit og Laxár í Laxárdal sem fóru í vinnuferðir norður og þar er allt klárt fyrir opnun urriðasvæðana í fyrramálið!
Við bíðum spennt eftir fréttum af opnuninni fyrir norðan, munum birta fréttir af því á næstu dögum.