Vikulegar veiðitölur

Síðustu vikuna hafa flestar laxveiðiár stangaveiðifélagsins hafa opnað, fyrstu tölur eru þokkalegar og erum við bjartsýn á sumarið. Það eru allar líkur á því að enginn regndans verður stiginn í sumar þar sem snjóstaðan í fjöllum hefur ekki verið eins mikil í mörg ár.

Langá byrjar ágætlega og í fyrradag voru komnir 247 laxar upp teljarann, það eru 42 laxar komnir á land og það var mikið líf þar í gær.

Elliðaár eru að fyllast af laxi og hafa 233 gengið upp teljarann, fiskar eru byrjaðir að veiðast fyrir ofan Hundasteina og sá silfraði er án efa kominn langleiðina upp að stíflu. 16 laxar eru skráðir í veiðibók en það hafa án efa veiðst fleiri, skráning fer í gegnum netið og er nauðsynlegt að allir veiðimenn í Elliðaánum skrái veiddan lax.

Leirvogsá fer heldur hægt af stað en veiðimenn sáu laxa í gær sem vildu ekki taka, fiskar kíktu upp í neðstu staði á flóði en það er bara tímaspursmál hvenær þeir ganga upp í Móhyl og Kvörnina og bíða eftir veiðimönnum.

Korpa opnar á morgun og eru 63 laxar búnir að ganga upp teljarann, það verður gaman að fylgjast með opnunni þar!

Straumfjarðará opnaði og ágætis gangur þar, Jón Þór Ólason er þar við veiðar núna og segir að áin sé að detta í toppvatn og eru 12 fiskar komnir á land.

Gljúfurá opnaði í gær og eru fjórir laxar komnir í bók og fleiri sluppu, Jóhann Davíð sem er við veiðar í ánni segir að hún er í glæsilegu vatni og laxinn er vel dreifður um svæðið.

 

Anna Katrín Ólafsdóttir með maríulaxinn sinn úr Hrynjanda í Gljúfurá

Haukadalsá opnaði 20. júní og í hádeginu í dag, föstudag, voru komnir 22 laxar í bók. Frábær tími er framundan

Sogið opnar á sunnudaginn og laxinn er mættur á svæðið, skemmtilegur valkostur stutt frá höfuðborginni.

Laugardalsá opnaði 20. júní og einn lax hefur komið á land og var hann 59cm sem kom í Hólmastreng, áin er sjatnandi eftir smá leysingar og er að detta í fullkomið vatn. Menn hafa verið að setja í og missa laxa en ekkert hefur sést til 107cm hrygnunnar sem gekk í ánna fyrir viku. Nú styttist í smálaxagöngurnar og verður áhugavert að fylgjast með þeim í teljaranum!

 

By admin Fréttir