Vetrarveiðar við Varmá

Við fengum skemmtilega frásögn frá Steingrími Sævarri sem var við veiðar í Varmá opnunardaginn í gær, við gefum Steingrími orðið:

“Varmá opnaði venju samkvæmt með glæsibrag þann 1. apríl og í ár ákváðu veðurguðirnir að hafa vetrarveiðar.  Það kyngdi niður snjó aðfaranótt fyrsta veiðidags og við félagarnir sem áttum að hefja veiðar kl. 08:00 vorum svo heppnir að geta elt veghefil yfir Hellisheiðina og að á.  Við ákváðum í ár að hefja leikinn efst í ánni, eða svo til og var hafist handa í Ármótum. Og örfáum mínútum eftir að hafist var handa við veiðar á fyrsta veiðidegi, var sá fyrsti kominn á land; vænn sjóbirtingur sem féll fyrir Flæðarmúsinni. Fleiri fiskar sáust á svæðinu en sá næsti kom á land í Reykjabeygju og sá þriðji í Reykjafossi, en sá reyndist staðbundinn urriði. 

Þegar nálgast fór hádegi birti skyndilega til og sólin kyssti kolla veiðimanna sem köstuðu í hamingjusælu og fimm gráðu frosti.  Vart varð við fiska um alla á og að sjálfsögðu gáfu Bakkarnir vel og það væna fiska.  Nokkrar bleikjur ginu við agni veiðimanna og við Teljarann og gömlu stífluna fengust nokkri fiskar. Sömu sögu er að sjálfsögðu að segja af Stöðvarbreiðunni, sem alltaf heldur fiski.

Það er óhætt að segja að vetrarveiðar við Varmá hafi byrjað vel, enda gefur þessi varma á alltaf vel ef menn eru iðnir og gefa sér tíma til að hreyfa sig aðeins meðfram bökkunum.”

Eitthvað er af lausum dögum í Varmá næstu daga og því um að gera að kíkja í vefsöluna og skoða lausa daga HÉR.

By admin Fréttir