Verðlaunamynd Veiðimannsins 2017

Jakob Sindri Þórsson krækti í þessa flottu bleikju í þjóðgarðinum á Þingvöllum en  þar veitir Veiðikortið – sem SVFR á helmingshlut í – veiðimönnum aðgang að spennandi veiðilendum. Mamma Jakobs, Ragnheiður Traustadóttir, tók myndina en við gefum honum orðið.

„Mamma tók þessa skemmtilegu mynd sem ég glímdi við í þjóðgarðinum nærri Arnarfelli í byrjun ágúst. Við höfðum ákveðið að fara í Hítarvatn á Mýrum og gista eina nótt og veiða en urðum að flýja þaðan þar sem ómögulegt var að tjalda fyrir vindi. Eftir að hafa skoðað veðurspána með hliðsjón af veiðivötnum Veiðikortsins ákváðum við að reyna við bleikjuna á Þingvöllum. Eftir að hafa leitað í smá stund við bakkann, með fluguna út í, fundum við loks fisk. Á stuttum tíma settum við í ellefu fiska sem létu vel finna fyrir sér. Þar á meðal var þessi bleikja sem var meira í loftinu en vatninu.“

Veiðimaðurinn óskar Jakob og Ragnheiði til hamingju með verðlaunamynd Veiðimannsins 2017. Fyrir hana fá þau veiðileyfi að andvirði 50 þúsund krónur á svæðum SVFR sumarið 2018.

By admin Fréttir