Á föstudagskvöldið 27. September var haldin Uppskeruhátíð Stangaveiðifélags Reykjavíkur.
Mætingin var góð og sá Silli Kokkur um veitingarnar sem voru dýrindis Gæsaborgari og franskar.
Dagskráin var þétt með mikilli skemmtun. En formaðurinn okkar hún Ragnheiður hélt ræðu og var með spurningakeppni sem einungis einn var með öll rétt svör við. Kvennanefndin sem heldur upp á 10 ára starfsafmæli á þessu ári var með kynningu á starfinu og fór yfir það hverjar hafi verið í stjórn kvennanefndarinnar. Margar skemmtilegar myndir rúlluðu undir þeirra kynningu sem sýndu vel gleðina í ferðum þeirra.
Elín Ingólfsdóttir var heiðruð af Ragnheiði formanni og henni veitt silfurmerki félagsins fyrir stofnun kvennanefndarinnar. Gunnar Helgason sagði frá skemmtilegri veiðisögu með miklum tilþrifum og undir hlátrasköllum gesta. Veitt voru verðlaun fyrir stærstu laxana í Elliðaánum, Haukadalsá, Langá og Sandá í Þistilfirði.
Einnig var verðlaunað fyrir fallegustu og skemmtilegustu myndina sem gestir höfðu skannað sjálfir inn og voru sýndar á tjaldinu milli skemmtiatriða. Myndakassi var á staðnum og myndaðist skemmtileg stemming í kringum hann.
Viðburðanefndin vill þakka öllum þeim sem mættu fyrir vel heppnað og skemmtilegt kvöld.