Veiðitímabilið hefst á morgun

Það er loksins komið að því, eftir margra mánaða hræðilega bið, veiðitímabilið hefst á morgun. Hjá okkur opnar Varmá kl. 8:00 í fyrramálið og eru allar stangir uppseldar. Bæði Bíldsfell og Alviðra opna í fyrramálið og er Bíldsfell uppselt en stangir eru lausar í Alviðru.

Við vonumst til að geta fært ykkur fréttir af veiðinni á morgun með myndum úr Varmá ef vel gengur.

Við óskum veiðimönnum öllum innilega til hamingju með nýtt veiðitímabil og óskum ykkur öllum góðra stunda á bakkanum í sumar.

Nýja vefsíðan

Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir höfum við tekið í gagnið nýja vefsíðu og vefsalan er einnig komin í loftið. Við biðjum ykkur um að sýna okkur þolinmæði með þessar nýjungar því við erum enn að vinna í að laga síðuna og vefsöluna til. Undanfarið hafa margar nýjungar verið að fara í gegn hjá okkur og munu þær að lokum vera til að bæta þjónustuna okkar til muna og það er alltaf stefnan. Hins vegar hefur borið á erfiðleikum með að innleiða þessar nýjungar og af þeim sökum hefur verið töluvert meira að gera hjá okkur og við ekki náð að komast yfir öll verkefnin. Við vonumst til að þessu fari brátt að ljúka og við getum einbeitt okkur að því að þjónusta okkar félagsmenn og á endanum verði allir glaðir.

Við höfum fengið kvartanir um að vefsalan sé ekki nógu aðgengileg og að það sé erfitt að finna þau leyfi sem menn leita af. Við vissum af því en ákváðum samt að setja hana í loftið því það var farið að liggja á henni. Við erum að vinna í að laga þetta og vonumst til að það verði klárt á næstu dögum.

Við þökkum ykkur kærlega fyrir sýnda þolinmæði.

Veiðihúsið í Bíldsfelli tekið í gegn

Nú í vetur hafa landeigendur að Bíldsfelli tekið gamla veiðihúsið þar alveg í gegn og gert á því ýmsar breytingar. Nú hefur litla herbergið verið tekið og rýmið opnað meira. Kojurnar sem þar voru og einnig í hinum herbergjunum hafa verið teknar og rúm sett í staðinn. Búið er að skipta um eldhús innréttingu, sett uppþvottavél, skipta út veggjum og gólfefni og í raun og veru umbreyta því alveg. Læt eina mynd fylgja með.

By admin Fréttir