Veiðitímabilið 2022

Óhætt er að segja að það hreinlega ískri í sumum okkar yfir komandi tímabili. Margir hafa nýtt veturinn vel í að töfra fram alls kyns tröllafiskaflugur og nú mega þeir stóru heldur betur fara að vara sig! Aðrir eru eflaust búnir að vera duglegir að renna yfir veiðimyndir frá liðnu ári og endurupplifa góðu stundirnar á bökkunum. Eitt er víst að minningar vakna til lífsins í gegnum ljósmyndir og ein mynd segir meira en þúsund orð.

Þess vegna þætti okkur gaman að fá sem flesta félagsmenn í lið með okkur á samfélagsmiðlum til að gera veiðitímabilið 2022 að ógleymanlegu tímabili. Það eina sem við biðjum um er að þið deilið gleðinni með SVFR samfélaginu með því að merkja veiðimyndirnar ykkar með myllumerkinu #svfr ásamt myllumerki með fjórum fyrstu stöfunum í viðkomandi ársvæði. Sem dæmi þá væri mynd sem tekin er í Andakílsá með myllumerkin #svfr og #anda.

Í haust þegar við höldum uppskeruhátíð er svo ætlunin að veita verðlaun fyrir bestu og skemmtilegustu myndirnar í hinum ýmsu flokkum eins og t.d. #maríufiskurársins22, #tröllafiskurársins22 og #veiðimyndársins22.

Með von um að komandi tímabil færi okkur skemmtilegar stundir á bakkanum, út í á eða með ‘ann á.

Fyrir hönd viðburðanefndar,
Helga Gísla

By SVFR ritstjórn Fréttir