Veiðisýning um Elliðaár – Ásgeir Heiðar. Upptaka.

Kæru félagar,

Á þriðjudaginn stóðum við ásamt Ásgeiri Heiðari fyrir veiðisýningu á bökkum Elliðaár. Hugmyndin af þessu kviknaði hjá Ásgeiri í vetur en hann vildi gjarnan koma sinni þekkingu og reynslu á laxveiði í Elliðaánum á framfæri til veiðimanna sem gætu haft af því gagn og nokkuð gaman.

Veiðimenn tóku þessari nýbreytni fagnandi og voru um 50 manns mættir við Breiðuna til að fylgjast með. Áin var mjög vatnsmikil og að mörgu leyti erfið, en morguninn gekk þrátt fyrir það mjög vel. Veiðistaðirnir Breiðan, Hundasteinar og Hraunið voru veiddir og fór Ásgeir Heiðar yfir hvernig hann telur best að veiða þessa vinsælu veiðistaði.

Við tókum strax ákvörðun um að þetta yrði að festa á filmu og fengum við í lið með okkur Einar Rafnsson sem sá um dróna og klippingu, Jón Víði Hauksson sem sá um að að mynda og formanninn okkar Röggu Thorst sem sá einnig um klippingu og eiga þau öll miklar þakkir skildar fyrir að nú getum við skilað þessum viðburði til þeirra félagsmanna sem komust ekki sem og auðvitað til komandi kynslóða.

Hér má smá myndband sem tekið var upp á veiðisýningunni á þriðjudaginn.

 

Við þökkum Ásgeir Heiðari fyrir sitt framlag en það er ekki sjálfgefið að veiðamenn þori í svona “live” veiðikynningu enda margt sem getur haft áhrif á hvernig tekst til þegar rigningar og gular viðvaranir skiptast á.  Á sama tíma erum við fullviss um að svona veiðisýningar eru frábær leið til að kynna svæðin og miðla þekkinu á milli veiðimanna, þannig að nú förum við strax að huga að næsta leik.

Með kveðju og njótið vel!

SVFR

By Ingimundur Bergsson Fréttir