Veiðisýning í Elliðaánum

Lærðu að veiða neðra svæðið í Elliðaánum með Ásgeiri Heiðari!

Þriðjudaginn 27.6 kl. 8.00 munum við blása til veiðisýningar sem hefst við Breiðuna sem er við brýrnar á neðsta svæðinu í Elliðaánum. Þá mun Ásgeir Heiðar sýna áhugasömum hvernig hann veiðir m.a. Breiðuna og fleiri staði á neðra svæði Elliðánna. Ekki liggur fyrir hversu lengi sýningin verður.

Ásgeir Heiðar hefur áratuga reynslu af veiði og leiðsögn við Elliðaárnar og víðar. Það má segja að hans aðferðir hafi skilað frábærum árangri í gegnum tíðina og með þessari veiðisýningu mun hann miðla reynslu sinni til veiðimanna sem stunda árnar. Vitaskuld nýtast þessar aðferðir ekki bara í Elliðaánum enda snýst þetta um hvernig menn nálgast veiðistaðinn með það fyrir augum að bera agnið rétt fram til að ná hámarksárangri. Ásgeir Heiðar er mikið í kringum árnar og oft í gegnum tíðina hafa veiðimenn notið góðs af heilræðum sem hafa reynst vel.

Við hvetjum alla veiðimenn sem hafa tök á að fylgast með viðburðinum sem hefst kl. 8.00 við Breiðuna, þriðjudaginn 27.6. Við bendum á bílastæði við Geirsnef og á malarplani við brýrnar.

Það má segja að um sé að ræða nýjung í veiðikennslu þar sem ekki er verið að kynna aðferðir með myndasýningu heldur við raunverulegar aðstæður í raunheimum! Við vitum ekki hvernig veðrið verður en þannig er veiðimennskan – við vonum bara það besta.

 

Með veiðikveðju,
SVFR

By Ingimundur Bergsson Fréttir