Laxá í Mývatnssveit opnar fyrir veiði á morgun, það er von á að þeir veiðimenn sem mæta fyrstir við ánna lendi í alvöru veiði því það hefur verið afar hlýtt síðustu daga fyrir norðan. Veðurspáin er til fyrirmyndar og eru eingöngu tveggja stafa tölur í kortunum. Laxárdalurinn fylgir fast á eftir en hann opnar 31. maí, það er sama veður í kortunum þar og verður gaman að fá fréttir af veiði. Við munum að sjálfsögðu setja inn myndir þegar við fáum þær!
Eins og hefur komið fram á vef Sporðakasta þá mun Hólmfríður Jónsdóttir taka á móti veiðimönnum í Mývatnssveit í sumar. Flestir veiðimenn kannast við Hólmfríði en hún var með veiðihúsið í Mývatnssveit frá árinu 1996 til 2008, þar á undan hafði hún sinnt veiðivörslu og sölu á veiðileyfum frá árinu 1973. Ein allra besta straumfluga sem hönnuð hefur verið fyrir Laxá heitir eftir Hólmfríði, við mælum með að allir hafi þær í boxinu sínu í sumar.