Veiðimaðurinn sumarblað

Sumarblað Veiðimannsins

Veiðimaðurinn, málgagn Stangaveiðifélags Reykjavíkur, er nú kominn úr prentun og farinn í dreifingu til félagsmanna, sem munu fá ritið á næstu dögum.

SVFR fagnar 85 ára afmæli í ár en félagið var, eins og mörgum félagsmönnum er kunnugt, stofnað 17. maí árið 1939. Af því tilefni er viðtal við Jón Hermannsson, sem er jafnaldri Stangaveiðifélags Reykjavíkur. Við Elliðáarnar vaknaði ástríða hans fyrir laxveiði á flugu.

Í Veiðimanninum er fjölbreytt efni að vanda. Fjallað er um væntingar til laxveiðinnar í sumar. Rætt er við Ingimund Bergsson, framkvæmdastjóra SVFR, um framkvæmdir og breytingar við Langá á Mýrum. Viðhorfskönnun sem félagið gerði síðasta vetur er birt í heild sinni en í henni kemur ýmislegt forvitnilegt í ljós. Sem dæmi þá höfðu 65% þátttakenda í könnuninni veitt í 31 ár eða lengur. Meirihluti félagsmanna eru hlynntur veiða og sleppa og ríflega þriðjungur vill sjá félagið auka úrval leyfa í sjóbirtingsveiði.

Í blaðinu er skemmtileg umfjöllun um Laxá í Laxárdal. Þá er félagsmönnum bent á fimm ótroðnar slóðir á Fjallinu í Langá og þeir fá uppskrift að góðri hamingjustund við árbakkann. Hér hefur einungis verið stiklað á stóru.

Þeir sem vilja taka forskot á sæluna geta skoðað rafræna útgáfu hér.

Gleðilegt sumar!

 

By Hjörleifur Steinarsson Fréttir