Veiðimaðurinn kominn út!

Vetrarblað Veiðimannsins 2019-2020

Vetrarblað Veiðimannsins er komið út og er á leið til lesenda. Fjölbreytt efni er í blaðinu að vanda og víða komið við. Tilhlökkun veiðimanna fyrir komandi veiðisumri fer nú vaxandi og tilvalið að stytta sér óralanga biðina til næsta vors með góðum veiðisögum.

Í þessu blaði kynnumst við litríkum listaverkaflugum Harðar Filipssonar sem hnýttar eru úr verðmætum fjöðrum framandi fugla. Flugurnar leika í höndum Harðar sem hnýtir þær að hætti gömlu meistaranna. Forsíðu blaðsins prýðir Green Highlander sem Hörður er við það að leggja lokahönd á en hann á einstakt safn flugna sem aðalsmaðurinn Traherne hannaði á sínum tíma og kom með eins og sprengja inn á markaðinn undir lok 19. aldar

Veiðimaðurinn rýnir í hvernig innlendur veiðileyfamarkaður varð til á síðustu áratugum og hvernig stangveiði varð að almenningsíþrótt á Íslandi.

80 ára afmælisári SVFR eru gerð góð skil í blaðinu en boðið var upp á fjölda viðburða í sumar til að minnast frumherjanna og fagna veiðidellunni. Á nýju ári verður Veiðimaðurinn, málgagn stangveiðimanna, jafnframt 80 ára og því fjölmörg tilefni til að fagna. Veiðiverslunin Veiðimaðurinn fagnar einnig 80 ára afmæli 2020. Við kynnum okkur söguna og fágætt veiðistangastafn Ólafs Vigfússonar sem á verslunina í dag ásamt eiginkonu sinni Maríu Önnu Clausen.

Kvennadeild SVFR lætur sífellt meira að sér kveða og í Veiðimanninum er fjallað um veiðiferð deildarinnar næsta sumar. Ungir veiðimenn segja frá sínum fyrstu köstum en þeir fóru með gamlar græjur langafa síns í Elliðavatn og byrjuðu að veiða þrátt fyrir að foreldrar þeirra væru algjörlega lausir við veiðidelluna. Í dag eru þeir með ört vaxandi veiðidellu og einstaklega efnilegir.

Veiðimaðurinn lærir að lesa vatn með Sigurði Héðni sem hefur fært til bókar áratuga veiðireynslu sína á bakkanum og rýnt er í nýja bók um Hofsá og Sunnudalsá.

Matreiðslumeistararnir Viktor Örn Andrésson, sem rekur veiðihús SVFR, og Hinrik Örn Lárusson reiða fram hátíðarrétti sem sóma sér á veilsuborðinu um jól og áramót. Veiðimenn með valkvíða fyrir matseðli komandi hátíða geta því leitað í smiðju þeirra. Ýmislegt fleira spennandi er borið á borð í blaðinu.

Forsíðumyndina tók meistari Golli af Herði þar sem hann er að ljúka við Green Highlander.

Vetrarblað Veiðimannsins er nr. 209 en það hefur komið út frá árinu 1940 og frætt og kætt fjölmargar kynslóðir veiðimanna í áratugi. Hægt er að kaupa eintök af blaðinu á skrifstofu SVFR á opnunartíma en skynsamlegast er að gerast áskrifandi með tölvupósti á [email protected]. Áskrift að blaðinu er innifalin í félagsgjaldi SVFR en blaðið kemur út tvisvar á ári. Því ekki að bætast í hópinn?

Gleðileg jól og fengsælt komandi ár.

Stangaveiðifélag Reykjavíkur.

 

 

Skrautflugan Blue Boyne hnýtt af Herði í stærð 6/0.

 

 

 

 

 

 

By admin Fréttir