Veiðifréttir af ársvæðunum

Brúará fór rólega af stað en veiðin tók við sér eftir hlýindi síðustu daga, stærsta bleikjan sem var skráð í veiðibók var 60cm og veiddi Magnús Stefánsson hana á pheasant tail í veiðistaðnum Víkin. Áin er aðeins skoluð eftir leysingar en er að hreinsa sig, það verður án efa fjör hjá þeim sem eiga leið í Brúará á næstu dögum! Mest hafa veiðimenn verið varir við fiska í Dynjanda og í Víkinni.

Korpa hefur verið mjög góð í vor, mikið hefur verið af sjóbirting á svæðinu og þá sérstaklega í Stokkunum. Í gær veiddust tveir sjóbirtingar yfir 80cm og var það Przemek Madej sem landaði þeim í Stíflunni, þeir tóku báðir Dýrbít við grjótin. Hann endaði með sjö sjóbirtinga og var alveg í skýjunum með daginn!

Leirvogsá fór afar rólega af stað en fyrstu dagana veiddust fáir fiskar. Strax og þegar það fór að hlýna fór að veiðast betur og hafa menn verið að setja í rígvæna sjóbirtinga. Óskar Örn Arnarsson fór síðasta þriðjudag ásamt tveimur veiðifélögum og settu þeir í þrettán sjóbirtinga og lönduðu átta, Flestir fiskarnir voru á milli 55 og 65cm en sá stærsti var 73cm, þeir tóku flestir hvítar straumflugur og var nobblerinn öflugur eins og oft áður. Fiskurinn var ágætlega dreifður en þeir félagar fóru ekki lengra upp en Húsbreiðu, en þeir fengu fiska í Breiðhyl, Gömlu Brú, Neðri Skrauta, Fitjaskotshyl og ómerktum stað fyrir neðan Móhyl. Talsvert var af fiski í Hornhyl og Birgishyl en þeir voru tregir til töku.

Við eigum laus leyfi í Brúará, Korpu og Leirvogsá  – Smellið hér til að fara í vefsöluna

Ertu með skemmtilega veiðisögu sem þú vilt deila? Endilega sendu hana ásamt mynd á [email protected]!

By Árni Kristinn Skúlason Fréttir