Úthlutun til félagsmanna – Nýr umsóknarvefur

Á haustmánuðum var tekin sú ákvörðun innan stjórnar að flýta úthlutun til félagsmanna. Þetta var gert til þess að félagsmenn fengju fyrr svör við því hvort og þá hvaða veiðileyfum þeim er úthlutað sem og að geta þá fyrr sett óseld leyfi í sölu. Í kjölfar þessarar ákvörðunar var farið á fullt í það að hanna nýjan og þægilegri umsóknarvef sem er nú klár og verður vonandi mikil bragabót.

Nýjungar sem fylgja nýjum umsóknarvef eru meðal annars þær að nú þarf að skrá sig inn með Auðkenni eða Íslykli og er það gert til þess að koma í veg fyrir misnotkun á kennitölum félagsmanna. Þeir félagsmenn sem eru með fjölskyldumeðlimi í félaginu, geta enn sótt um fyrir viðkomandi en gera það þá í gegnum sína skráningu. Allar frekari skýringar er að finna inn á umsóknarvefnum hjá okkur sem og frekari leiðbeiningar hér að neðan.

Hér má sjá og sækja Söluskrá 2018. Þar má sjá hvaða dagar eru í boði á hvaða verðum. ATH að þetta skjal er birt með fyrirvara um villur.

Leiðbeiningar með nýjum umsóknarvef

Þegar komið er inn á heimasíðu SVFR er ýtt á “Umsóknir” hnappinn uppi hægra megin, þaðan eru umsækjendur leiddir yfir á heimasíðu auðkenna/íslykils. Önnur hvor leiðin er notuð til þess að skrá sig inn á umsóknarvefinn. Þeir sem ekki eru með Íslykil geta fengið þá senda í heimabankann, en þeir sem vilja heldur nýtast við auðkenni í gegnum síma er bent á að fara í næsta bankaútibú og fá það skráð.

Eftir að innskráningu er lokið sérð þú umsóknarvefinn.

Í felliglugga vinstra megin á síðunni er valið það ársvæði sem viðkomandi vill sækja um.

Kennitala umsækjanda: hér er hægt að haka við að innskráður aðili sé að sækja um fyrir aðra kennitölu, síðan eru settar upplýsingar um þá kennitölu og haldið áfram.

Almennar upplýsingar: hér er hægt að breyta umsóknum á nafni viðkomandi, símanúmeri og tölvupósti vegna umsóknarferils.

Veiðitímabil og forgangur og fjöldi stanga: hér eru valdir umbeðnir dagar eða holl sem við á, sem og forgangur A, B, C o.s.frv og síðan hversu margar stangir er verið að sækja um.

Veiðidagar til vara: hér er hægt að setja inn þá veiðidaga sem eru til vara á umsókninni.

Nafn á holli og veiðifélagar: ef verið er að sækja um á hópumsókn, þá er upplagt að setja hér inn “nafn á holli” sem getur verið hvað sem er, sem og þá nöfn félagsmanna og kennitölur þeirra.

Annað: ef það eru einhverjar athugasemdir sem viðkomandi vill koma á framfæri vegna umsóknarinnar þá er hægt að koma þeim fyrir hér.

Þegar þessu er lokið er hakað við í reitinn hliðiná “Ég samþykki skilmálana” en skilmála og úthlutunarreglur er hægt að kynna sér í hlekknum fyrir neðan.

Eftir að búið er að haka í reitinn birtist reitur þar sem hægt er að senda inn umsóknina. Við það berst viðkomandi póstur með staðfestingu.

Eftir að umsókn hefur verið send inn, er hægt að velja annað ársvæði og sækja um upp á nýtt á B-leyfi eða silungaleyfum, og svo koll af kolli.

Á upphafssíðu umsóknarvefsins er hægt að sjá þær umsóknir sem viðkomandi hefur sent inn, bæði fyrir lax og silung, sem og þær umsóknir sem einhver hefur sótt um fyrir hönd viðkomandi (td. Hópumsókn). Hér er hægt að breyta umsóknum og skoða þær.

Vegna þess að við erum að taka í notkun nýjan umsóknarvef og viðbúið að einhver aðlögunartími verður fyrir félagsmenn að venjast nýju útliti, þá höfum við umsóknarfrestinn ríflegan og verður hann betur kynntur síðar. Við gerum okkur grein fyrir því að það munu vakna spurningar en við biðjum ykkur að senda okkur tölvupóst á [email protected] með spurningum og við munum svara eins fljótt og auðið er. 

ATHUGIÐ: Þau númer sem koma fyrir á umsóknarvefnum, eru ekki félagsnúmer, en við erum að vinna í því að koma þeim fyrir. En þau þarf ekki að nota í sjálfu umsóknarferlinu.

By SVFR ritstjórn Fréttir