Úthlutun í Elliðaárnar 2024

Í fyrsta sinn svo elstu menn muna voru fleiri umsóknir um dagspart í Elliðaánum heldur en dagarnir sem í boði voru en 902 einstaklingar sóttu um 778 dagsparta sem í boði voru.

Framkvæmd dráttarins var á þann hátt að allir fengu handahófskennda tolu á milli 1-10.000. Síðan var töflunni raðað, fyrst eftir dögum, síðan parti (f.h eða e.h) og næst eftir handahófskennda númerinu sem hver og einn fékk úthlutað.

Þegar búið var að úthluta fyrir hvern dagspart voru þeim sem ekki fengu úthlutað samkvæmt óskadegi raðað eftir númerinu sem hver og einn fékk og þeim raðað niður á lausu dagspartana eftir styrk.

Eftir að raðað hafði verið eftir styrk hvers og eins voru því miður 124 einstaklingar sem ekki fengu dagsparti úthlutað.  Þessir aðilar fara þó á biðlista og munu ganga fyrir leyfum sem kunna að verða skilað inn eftir úthlutun en það er ekki óalgengt að þeir sem ekki fá umbeðna daga, en fá þó daga, geti ekki nýtt þá og skila þeim því inn.

Miðað við þennan umsóknarþunga og biðlista þeirra sem ekkert fengu eru hverfandi líkur á því að svo mikið sem einn dagspartur kunni að rata í vefsöluna þetta árið í Elliðaárnar.

 

Elliðaárnar – lax – umsóknir 2024 Hlutfall
778 dagspartar í boði 100,0%
902 gildar umsóknir 115,9%
500 fengu umbeðinn dag 55,4%
402 fengu ekki umbeðinn dag 44,6%
278 fengu ekki umbeðinn dag, en fá næsta lausa dag raðað eftir styrk handahófstölunnar sem þeir fengu í útdrættinum. 30,8%
124 fengu því miður ekkert en fara á biðlista. (Vonandi verður hægt að fá samþykkt að þeir gangi fyrir á næsta ári.) 13,7%
278 lausir dagar eftir úthlutun og fer til þeirra sem fengu ekki umbeðin dag. 100%
120  – fyrir hádegi 43%
158  – eftir hádegi 57%

 

Það var einnig mjög mikil eftirspurn í vorveiðina og því ekki hægt að úthluta neinum báðum stöngunum. Þeir sem ekki fengu umbeðna daga – fengu oftast daga sem voru næst þeim dögum sem sótt var um.

By Ingimundur Bergsson Fréttir