Umsóknarfrestur og fleira skemmtilegt

Eins og glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir þá stendur nú yfir umsóknarferlið um veiðileyfi á næsta veiðitímabili. Við ákváðum að bíða með að setja frest til að sækja um því við vildum vera viss um að umsóknarvefurinn virkaði sem skyldi. Jú, einhverjar villur komu upp og þær voru lagaðar í snarhasti. Nú hefur ekkert komið upp í nokkra daga og því erum við nú búin að ákveða umsóknarfrestinn og skal hann vera 2. janúar 2018 kl. 23:59.

Enginn frekari frestur verður gefinn heldur mun umsóknarvefurinn lokast á slaginu 23:59 (samkvæmt tölvukerfinu) og því er vissara að vera ekki að standa í þessu rétt fyrir lokun. Strax daginn eftir verður farið að vinna í að raða niður hollum og veiðileyfum og er það von okkar að sú vinna taki ekki langan tíma.

Það er þá komið á hreint, umsóknarfrestur rennur út þann 2. janúar 2018 kl. 23.59.

Laus leyfi á geggjuðum tíma í Langá

Við vorum að fá afbókun á hreint út sagt geggjuðum veiðileyfum í Langá. Annars vegar 30. júní – 3. júlí, 2 stangir, hins vegar 6. – 9. júlí, 1 stöng. Þess má til gamans geta að þann 28. júní er stórstreymt og því er fyrra hollið strax á eftir stórstreyminu. Áhugasamir hafi samband við [email protected] til að ganga frá bókun á þessum leyfum.

Minnum á gjafabréfin

Jólagjöf veiðimannsins eru veiðileyfi og hjá okkur getur þú fengið gjafabréfin okkar vinsælu. Kíktu við til okkar og gakktu frá kaupum á gjafabréfi, hvort sem er fyrir veiðileyfum eða inntöku í félagið. Skrifstofan er opin alla daga til kl. 16.00 og við erum staðsett á Rafstöðvarvegi 14.

By admin Fréttir