Umsögn SVFR vegna laga um lagareldi

SVFR lagði inn umsögn varðandi laga um lagereldi sem má sjá í heild sinni hér fyrir neðan:

10. janúar 2024

Stangaveiðifélag Reykjavíkur 620269-3799 eru stærstu og elstu félagasamtök áhugamanna um stangaveiði á Ísland, stofnað 17. maí árið 1939. Fjöldi félagsmanna árið 2024 voru 3000.

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um lagareldi

Yfirlýst markmið frumvarps til laga um lagareldi munu ekki nást, verði frumvarpið óbreytt að lögum. Til þess eru annmarkarnir of margir og þar með er útilokað að ætluð verðmætasköpun í lagareldi eigi samleið með hugmyndafræðinni um sjálfbæra og vistvæna nýtingu hafsins.

Ekkert hefur meira spágildi um framtíðina en fortíðin. Reynsla annarra þjóða af sjókvíaeldi og ítrekuð áföll í rekstri fiskeldisfyrirtækja hérlendis sýna ótvírætt að hvorki rekstraraðilar né stjórnvöld standa vörð um náttúruna af heilum hug. Alvarleg umhverfisslys hafa ítrekað orðið og hvorki lagaumgjörð né verklag fyrirtækjanna sjálfra hafa tekið breytingum í takt við þarfir náttúrunnar. Slysa- og vanrækslusleppingar á frjóum laxi ógna náttúrulegum laxastofni, lús étur milljónir lifandi fiska í kvíum og umhverfisáhrif á hafsbotni eru grátleg, m.a. á svæðum þar sem hækkun sjávarbotns hefur hækkað um marga metra vegna úrgangs frá sjókvíaeldi. Fyrirliggjandi frumvarp gengur hvergi nógu langt til verndar náttúrunni og einstökum íslenskum laxastofni, sem er í bráðri hættu vegna sjókvíaeldis. Þá dregur frumvarpið ekki úr nagandi afkomuótta þeirra þúsunda einstaklinga sem njóta tekna af sölu og þjónustu við laxveiðiár um allt land. Lífsgæðum þeirra er stefnt í hættu, þar sem hagsmunir nýrrrar atvinnugreinar eru teknir fram yfir hagsmuni þeirra sem stunda rótgróinn rekstur í sveitum landsins, með sölu veiðiréttinda og margvíslegri tengdri þjónustu.

Það er ótvíræð krafa SVFR að frekari útþensla fiskeldis í sjókvíum verði stöðvuð strax. Að útgáfu nýrra starfsleyfa verði hætt og fyrirhugaðri framleiðsluaukningu fiskeldisfyrirtækja verði afstýrt.  Jafnframt verði gripið til aðgerða sem beinlínis minnki umsvif fyrirtækjanna og sjókvíaeldi verði að endingu hætt með öllu. Þar til því markmiði verður náð þarf lagaumgjörð fiskeldis að vera mun strangara en nú er. Fyrirliggjandi frumvarp gefur að einhverju leyti góð fyrirheit, en óvissuþættir eru allt of margir og frumvarpið tryggir alls ekki hagsmuni náttúrunnar.

SVFR telur með öllu óásættanlegt að innra eftirlit með starfsemi fiskeldisfyrirtækja verði áfram á vegum fyrirtækjanna sjálfra, enda hafa þau endurtekið brugðist trausti almennings. Eftirlitið á að vera óháð fyrirtækjunum með öllu, öflugt, sterkt og óvænt. Jafnframt skal ljóst vera í lögum, að allur kostnaður vegna eftirlits skuli falla á fiskeldisfyrirtækin en ekki íslenska skattgreiðendur.

Frumvarpið heimilar of mikil afföll í sjókvíaeldi og tilgreinir ekki nægar refsiheimildir vegna þess fiskjar sem sleppur úr sjókvíum. Afföll yfir 10% eru með öllu óviðunandi og beita þarf hörðum viðurlögum, háum fjársektum og varanlegri leyfisskerðingu þegar slík mál koma upp.

Reynsla annarra þjóða sýnir ótvírætt, að veruleg hætta er á erfðablöndum vegna strokufisks úr sjókvíaeldi. Hérlendis er stórslys í uppsiglingu, þar sem hundruð – jafnvel þúsundir – frjórra og kynþroska sjóeldislaxa leituðu upp í íslenskar ár sl. haust og stefndu í hættu stofnum ánna. Þótt tekist hafi að veiða hluta þeirra eldislaxa sem sluppu er óhugsandi að þeir hafi allir fundist og veiðst, en hitt líklegra að þeir hafi æxlast með náttúrulegum stofnum í fjölmörgum ám. SVFR krossleggur fingur og vonar að afleiðingar þess verði litlar, en óttast hið versta þar sem náttúrulegir stofnar eru víðast hvar viðkvæmir og mega ekki við áföllum.

Helsta vörn hvers ársvæðis felst í sterkum náttúrulegum stofni og því leggur SVFR til, að gripið verði til sérstakra aðgerða til að styðja við stofnana. Komið verði á laggirnar sérstakri seiðaræktunarstöð, þar sem seiði úr náttúrulegum stofnum verði ræktuð til sleppingar í viðkomandi ám. Mikilvægt er að slík stöð sé nútímaleg í alla staði, svo hægt sé að styðja með öruggum hætti ólíka náttúrulega stofna. Kostnaður vegna slíkrar starfsemi á augljóslega að falla á þá sem skapað hafa hættuna af erfðablöndun – fiskeldisfyrirtækin sjálf – en hvorki almenning né veiðiréttarhafa. Það er krafa SVFR að ráðherra verði skylt að taka mið af áhættumati erfðablöndunar, en geti ekki kosið að líta framhjá því eins og fyrirliggjandi frumvarp heimilar.

Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að síðastliðið haust voru tæplega 26 milljónir eldislaxa í opnum sjókvíum hér við land. Til samanburðar hefur villti íslenski hrygningarstofninn talið um 80 þúsund laxa að meðaltali frá 1971 samkvæmt Hafrannsóknarstofnun. Líklegt er að stofninn sé enn minni í dag eða 60 til 70 þúsund laxar. Endurspegla þessi stærðarhlutföll vel hættuna sem villti stofninn stendur frammi fyrir, ekki síst þegar haft er í huga að síðasta haust sluppu, varlega áætlað, um 3.500 laxar úr sjókví í Patreksfirði og var tæplega helmingur þeirra kynþroska. Einungis þrjú ár eru síðan 82 þúsund laxar sluppu úr sjókví í Arnarfirði.

SVFR vill að tilgreint verði í lögum hvaða lúsagildi eru ásættanleg en það verkefni verði ekki falið öðrum. Nýlegur lúsafaraldur, þar sem farga þurfti þúsund tonnum af laxi vegna alvarlegrar sýkingar, er skýrt dæmi um ógnina sem stafar af laxalúsinni. Þá ógn þarf að taka alvarlega og hvergi gera tilslakanir á kröfum. Viðbrögð stjórnvalda þurfa jafnframt að vera veruleg og varanleg ef frávik verða frá þeim reglum sem gilda.

SVFR hvetur eindregið til þess, að strangar reglur verði settar um lagareldi svo ekki hljótist varanlegur náttúruskaði af starfseminni. Kjósi stjórnvöld að heimila áfram fiskeldi í sjó skal gerð krafa um afdráttarlausa fylgni við lög og reglur, með alvarlegum viðurlögum við frávikum frá starfsleyfi.

Í þessum efnum er vert að benda á skýrslu Ríkisendurskoðunar sem birt var í febrúar í fyrra. Í henni segir að stjórnsýsla og eftirlit með lagareldi hafi reynst „veikburða og brotakennd og vart í stakk búin til að takast á við aukin umsvif greinarinnar á síðustu árum. Breytingum á lögum um fiskeldi, sem var ætlað að stuðla að vexti og viðgangi greinarinnar í sátt við bæði samfélag og umhverfi, var ekki fylgt eftir með því að styrkja stjórnsýslu og eftirlit þeirra stofnana sem mæðir mest á.”

Að lokum hvetur SVFR til þess, að einungis sé notast við ófrjóan lax í sjókvíaeldi við Íslandi enda megi þannig draga verulega úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfseminni.

 

Stjórn Stangaveiðfélags Reykjavíkur

By Ingimundur Bergsson Fréttir