Um brot á veiðireglum

Því miður hefur okkur nú borist tvær tilkynningar um brot á veiðireglum á einu af svæðum okkar. Reglur á svæðinu kveða á um að einungis sé veitt á flugu en því miður hafa nú tveir hópar tilkynnt ummerki um maðk- og spúnaveiði á svæðinu. Við fengum senda mynd af útbúnaði sem ekkert á skylt við fluguveiði, flotholt og slöngusakka, sem veitt var upp úr einum hylnum í ánni.

 

Veiðimenn sáu einnig sökkur fyrir utan húsið, spún í botninum á einum hylnum og fleiri ummerki. Svona hegðun er ólíðandi og ber vott um eigingirni af hálfu þeirra sem gera. Menn hugsa ekkert um það hverjir eru að koma á eftir þeim. Það eru örfá skemmd epli sem skemma fyrir heildinni og svona lagað verður til þess að stórefla þarf veiðivörslu á svæðunum með tilheyrandi kostnaði sem verður þá að velta út í verðlag á veiðileyfum. Það er eitthvað sem enginn vill.

Við bendum á að innan vébanda SVFR eru þrjú svæði þar sem bæði má veiða á spún og flugu, og átta svæði þar sem leyfilegt er að veiða bæði á maðk og flugu. Samtals eru þetta 11 svæði þar sem veiða má á blandað agn og því á ekki að þurfa að fara í ár þar sem reglur kveða á um að bara sé veitt á flugu og brjóta reglurnar þar.

Stangaveiðifélag Reykjavíkur fordæmir hvers kyns brot á veiðireglum. Hafa ber í huga að það eru ekki bara við sem setjum reglurnar, víða er kveðið á um það í samningum að einungis sé leyfilegt að veiða á flugu og það er því mikilvægt að félagsmenn okkar og aðrir sem kaupa af okkur veiðileyfi fari eftir reglum.

By admin Fréttir