Takk fyrir komuna!

Síðasta Opna hús vetrarins fór fram föstudagskvöldið 4. maí síðastliðinn. Við erum himinlifandi með frábæra mætingu og langar að þakka sérstaklega þeim sem komu og fyrir þá sem ekki sáu sér fært að mæta að fara aðeins yfir hvað þar fór fram.

Formaður SVFR, Jón Þór Ólason, flutti stutta ræðu um mikilvægi félagsskaparins og að eftir nokkur ár þar sem mesta púður hefur farið í fjárhagslegan rekstur félagsins verði nú farið í að blása lífi í félagslífið. Því næst sagði hann viðstöddum frá sínum 5 uppáhalds veiðistöðum en þeir eru Stangarhylur og Hrafnaklettar í Langá, Vitaðgsgjafi og Skriðuflúð í Laxá í Aðaldal og svo Blóti í Haukadalsá.

Formaður Kvennanefndar SVFR var næst í ræðustól og sagði frá starfi nefndarinnar og stórskemmtilegri veiðiferð sem hluti kvennanna fór í til Skotlands að veiða lax á dögunum. Við minnum á þennan stórskemmtilega félagsskap sem Kvennanefndin er og við hvetjum allar konur sem langar að vita meira að hafa samband við okkur og leita upplýsinga.

Þá var komið að þeim Holger Torp og Snorra Tómassyni að kynna fyrir viðstadda það frábæra veiðisvæði Eldvatnsbotna. Þeir félagar hafa séð um árnefndarstörf í ánni síðan árið 2002 og hafa gert það með miklum sóma. Þeir leiddu okkur í sannleikann um svæðið og það er ljóst að í Eldvatnsbotnum er að finna stóra sjóbirtinga.

Ingólfur Örn Björgvinsson veiðileiðsögumaður flutti því næst kynningu á Varmá en þeir eru fáir á landinu sem þekkja ána betur en Ingólfur. Hann fór í gegnum helstu aðferðir, veiðistaði og hvaða fisktegundir veiðimenn geta átt von á.

Að lokum var það svo happahylurinn víðfrægi en í honum var aragrúi vinninga sem velunnarar félagsins gáf. Við þökkum þeim að sjálfsögðu sérstaklega vel fyrir.

Hægt er að skoða myndir frá kvöldinu á Facebook síðu SVFR: https://www.facebook.com/pg/stangaveidifelagid/photos/?tab=album&album_id=10155734532849615

 

By admin Fréttir