Sumarblað Veiðimannsins 2023!

Í nýju tölublaði Veiðimannsins, sem komið er út, er fjallað um Elliðaárnar eftir að breytt fyrirkomulag var tekið upp við veiðarnar, þ.e. að aðeins skyldi veitt á flugu og öllum fiski sleppt. Rýnt er í tölfræði og rætt við formann árnefndar SVFR um umbreytingu ánna en það er nánast ómögulegt að fá leyfi í ánum í sumar eftir breytinguna.

Blaðið nú kemur fyrst út á vefnum og er opið öllum en dyggir félagsmenn fá að sjálfsögðu vandaðan prentgrip inn um lúguna í kjölfarið. Það má kalla þetta sumargjöf Veiðimannsins í tilefni þess að Veiðimaðurinn er nú aðgengilegur öllum áhugasömum á tímarit.is, allt frá 1940 þegar fyrsta blaðið kom út. Fjársjóður fræðslu og minninga hefur því opnast veiðimönnum sem geta nú leitað upplýsinga um fjölmörg ársvæði með hjálp tækninnar á örskotsstundu.

Væntingar veiðimanna um góða veiði eru aldrei meiri en í byrjun veiðitímabilsins og rýnt er í horfurnar með hjálp fiskifræðings. Því miður verða slys á veiðislóð og rætt er við sérfræðing í skyndihjálp um rétt viðbrögð við ýmsum aðstæðum sem veiðimenn geta þurft að horfast í augu við.

Ragnheiður Thorsteinsson var á árinu fyrsta konan til að vera kjörin formaður SVFR og konur skipa nú meirihluta stjórnar félagsins í fyrsta skipti. Rætt er við hana um fjölbreytt málefni veiðiheimsins.

Margt fleira forvitnilegt efni er í blaðinu. Meðal annars er fjallað um hvernig eigi að læðast að veiðistað, sagan af risalaxi Jakobs Hafstein sem hann veiddi í Laxá í Aðaldal 1943 er rifjuð upp og hulunni svipt af því hvernig krækja eigi í þann stóra.

Þá er dregin upp mynd af efsta svæði Langár, sem er sannkölluð paradís, en það verður nú opið almennum veiðimönnum í fyrsta skipti og er á hagstæðum kjörum. Veiðimaðurinn kíkir einnig í eldhúsið hjá Hrefnu Sætran og lærir að að töfra fram kræsingar úr afla sumarsins. Að auki er fjallað er um silungsveiði í málgagni stangaveiðimanna og aukinn áhuga á henni sérstaklega meðal ungra veiðimanna.

Gleðilegt veiðisumar!

By SVFR ritstjórn Fréttir