Stórlaxar leynast í Langá!

Veiðin í Langá hefur gengið vel í sumar og er áin komin yfir 1200 veidda laxa. Síðustu daga hefur þó takan aðeins róast og hefur vatn lækkað aðeins þrátt fyrir að það sé enn flott vatn í ánni. Það er lax á öllum svæðum og nánast fiskur í hverjum hyl og því sérstaklega ánægjulegt að vera við veiðarnar. Margir fiskar hafa gengið upp á fjall og hefur veiðin á svæði 6, sem er efsta svæði árinnar, gengið mjög vel.

Í gær fékk erlendur veiðimaður, Dave Strelitz, 95 sm hæng úr veiðistaðnum Þjótanda (svæði 2) undir leiðsögn Bjarts Ara leiðsögumanns. Þessi fallegi hængur tók rauða Frances micrótúbu með kúluhaus og krókastærð 14. Dave var með 14 punda (1x) taum og því ekki laust við að veiðimaður hafi verið örlítið stressaður í átökunum.

Þessi lax er sá stærsti úr ánni í sumar og við óskum Dave til hamingju með laxinn en fisknum var að sjálfsögðu sleppt aftur sem eykur spennuna fyrir næstu veiðimenn.

Hér má sjá mynd af Dave (t.h) og Bjarti Ara Hanssyni leiðsögumanni við Langá.

 

Með veiðikveðju,

SVFR

By admin Fréttir