STANGÓ – 80 ára afmælisfluga SVFR

Þetta er stórlaxafluga,“ segir Sigurður Héðinn og spáir því að hún eigi eftir að landa alla vega 80 löxum í sumar. „Einum fyrir hvert ár.“ Veiðimaðurinn spáir því raunar að þeir verði fleiri enda bæði falleg og veiðileg fluga í senn.

Í tilefni afmælis félagsins ákvað SVFR að láta hnýta afmælisflugu Stangó sem yrði jafnframt einkennisfluga félagsins fyrir komandi veiðitímabil. Siggi, sem oftar en ekki er kenndur við sköpunarverk sitt Hauginn, var í byrjun með merki SVFR í huga þegar flugan varð til. Stóran lax að stökkva upp foss eða kraftmiklar flúðir.

Stangó heitir flugan og megi hún verða uppspretta fjölmargra veiðisagna og viðureigna við spræka laxa. Takk Siggi Haugur og gleðilegt veiðisumar!

Fyrstu eintök flugunnar verða til sölu á afmælishátíð SVFR í Elliðaárdalnum, á heimavelli félagsins, föstudaginn 17. maí kl. 17-19. Þann dag verða 80 ár frá því Stangaveiðifélag Reykavíkur var stofnað en stofnfélagarnir höfðu áhyggjur af framtíð laxveiði í Elliðaánum og vildu efla stangaveiðiíþróttina á Íslandi.

Elliðaárnar eru í dag meðal bestu laxveiðiáa landsins, hluti af stórkostlegu útivistarsvæði Reykvíkinga. Fjölmargir ungir veiðimenn taka þar sín fyrstu köst á hverju sumri og stangaveiðiíþróttin blómstrar sem aldrei fyrr.

 

Hér fyrir neðan má sjá fluguna í veiðiútgáfu og viðhafnarútgáfu.

By admin Fréttir