Spúninum kippt úr Soginu

Á stjórnarfundi Stangaveiðifélags Reykjavíkur síðastliðinn miðvikudag var samþykkt einróma að spúnn yrði bannaður í Soginu frá og með sumrinu 2019.

Vegna lélegrar veiði í Soginu 2017, var tekin sú ákvörðun að bannað yrði að veiða á maðk og að öllum laxi skildi sleppt, frá og með sumrinu 2019 verður skrefið tekið að fullu og spúnninn tekinn upp líka. Núverandi stjórn félagsins hefur ekki látið sitt eftir liggja í aðgerðum sem viðkoma veiðisvæðum í Soginu og meðal annars var tekið fyrir vorveiði í Soginu í ár, og var það gert meðal annars til þess að vernda hrygningastöðvar í ánni. Einnig var farið í aðgerðir með Landsvirkjun um að jafna rennsli Sogsins til að sporna við rennslisveiflum.

Í kjölfarið á því að spúnn verður bannaður í Bíldsfelli verður farið í það sérstaklega að ná sátt um vaðleiðir í Soginu sem hafa verið mikið til umfjöllunar síðastliðna daga og vikur, en einhver venja virðist hafa skapast í áranna rás um það hvernig menn veiða Sogið, en nú verður tekið það skref að ná sátt með veiðirétthöfum um hvar megi og hvar megi ekki vaða í Soginu til þess að veiða ákveðna staði.

Það er þó að frétta úr Bíldsfelli að fínasta veiði var þar í sumar og náðust um 150 laxar á land, þó svo að það séu ekki staðfestar tölur. Einnig stefnir í það að netin fari ekkert niður næsta sumar og ætti því enn að bætast í göngur upp í allt veiðisvæði Sogsins.

By admin Fréttir