Aðalfundur Stangaveiðifélags Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í gær ályktun vegna sjókvíaeldis á laxi. Hér er ályktunin:
Ályktun aðalfundar SVFR.
Aðalfundur SVFR skorar á stjórnvöld að bregðast við því ófremdarástandi sem skapast hefur í sjókvíaeldismálum við strendur Íslands.
Á síðasta ári varð stórslys. Þúsundir frjórra eldislaxa sluppu úr sjókví Arctic Fish í Patreksfirði. Fljótlega var upplýst að 95 dagar höfðu liðið án þess að fyrirtækið kannaði ástand kvíarinnar en á henni voru tvö göt. Samkvæmt lögum hafa sjókvíaeldisfyrirtæki eftirlit með sjálfum sér.
Staðfest er að eldislaxinn leitaði upp í fjölmargar ár á Vestfjörðum, sem og Vestur- og Norðurlandi. Langtímaafleiðingar þessa eiga eftir að koma í ljós en fullvíst er að hluti þessara eldislaxa og norsku kyni hefur blandast villta íslenska laxastofninum.
Þetta er langt í frá einsdæmi, því á hverju ári berast fréttir af slysaleppingum í sjókvíaeldi án þess að þær hafi nokkrar afleiðingar fyrir sjókvíeldisfyrirtækin. Árið 2021 sluppu sem dæmi 82 þúsund eldislaxar úr sjókví Arnarlax í Arnarfirði. Í þessu sambandi má benda á að stærð villta íslenska hrygningarstofnsins er 70-80 þúsund laxar. Þetta er ójafn leikur. Náttúrunni í óhag.
Ábyrgð stjórnvalda í sjókvíaeldismálum er mikil því það voru þau sem bjuggu til rammann utan um starfsemina eins og hún er í dag. Ramma þar sem náttúran og villti íslenski laxinn hefur aldrei fengið að njóta vafans.
Fyrir ári síðan birti Ríkisendurskoðun skýrslu um sjókvíaeldi þar sem dregin var upp dökk mynd. Í skýrslunni segir að stjórnsýsla og eftirlit með greininni hafi reynst „veikburða og brotakennd og vart í stakk búin til að takast á við aukin umsvif greinarinnar á síðustu árum. Breytingum á lögum um fiskeldi, sem var ætlað að stuðla að vexti og viðgangi greinarinnar í sátt við bæði samfélag og umhverfi, var ekki fylgt eftir með því að styrkja stjórnsýslu og eftirlit þeirra stofnana sem mæðir mest á.“
Aðalfundur SVFR skorar á stjórnvöld að bregðast við þessu. Aðalfundur SVFR telur ótækt að sjókvíaeldisfyrirtækin hafi eftirlit með sjálfum sér. Það er fullreynt og ljóst að óháður aðili þarf að annast eftirlitið. Reynslan sýnir að herða þarf eftirlit með starfseminni til mikilla muna.
Samkvæmt drögum að frumvarpi til laga um lagareldi hefur Matvælastofnun heimild til að beita dagsektum fari rekstrarleyfishafar ekki að fyrirmælum stofnunarinnar samkvæmt lögunum eða reglugerðum. Dagsektirnar mega nema allt að einni milljón á sólarhring og á sektarfjárhæðin að renna í ríkissjóð.
Aðalfundur SVFR skorar á stjórnvöld að breyta orðalaginu þannig að dagsektir nemi að lágmarki einni milljón á sólarhring og sektarfjárhæðin renni til verndar villta íslenska laxastofninum.
Samkvæmt frumvarpsdrögunum hefur Matvælastofnun jafnframt heimild að leggja á stjórnvaldssektir brjóti aðilar gegn nokkrum ákvæðum laganna en ákvæðin sem talin eru upp í því sambandi eru 19 talsins. Getur sektin numið allt að 10% af heildarveltu síðasta rekstrarárs.
Aðalfundur SVFR skorar á stjórnvöld að breyta orðalaginu þannig að stjórnvaldssektir nemi að lágmarki 10% af heildarveltu og sektarfjárhæðin renni til verndar villta íslenska laxastofninum.
Aðalfundur SVFR ber hag náttúrunnar og villta íslenska laxastofnsins fyrir brjósti. Ályktunin og áskoranirnar aðalfundar mótast af þeirri staðreynd, sem og því að sjókvíaeldisfyrirtækin bera ekkert skynbragð á tjónið, sem starfsemi þeirra hefur valdið og kann að valda í framtíðinni.
Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin (e. International Union for Conservation of Nature – IUCN) voru stofnuð árið 1948 af UNESCO, sem er undirstofnun Sameinuðu þjóðanna, Svissneska náttúruverndarráðinu og frönsku ríkisstjórninni.
Samtökin halda m.a. utan um svokallaðan rauðan lista, sem er gagnagrunnur yfir ástand stofna ýmissa lífvera sem vá er talin steðja að. Í desember síðastliðnum, eða fyrir tveimur mánuðum, settu samtökin villta laxastofninn á þennan lista. Þess ber að geta að villti norski laxinn er fyrir löngu kominn á lista og er það vegna gríðarlegra neikvæðra áhrifa norsks sjókvíaeldis á hann. Þessi sömu norsku fyrirtæki eiga nú meirihluta íslensku sjókvíaeldisfyrirtækjanna.
Aðalfundur SVFR skorar á stjórnvöld að bregðast við þessum staðreyndum.