Veiðitímabilið 2018 er að renna sitt skeið og vonandi hafa veiðimenn skapað skemmtilegar minningar í veiðinni í sumar.
Margir festa veiðiminningarnar á mynd eða myndband og nú langar SVFR að kalla eftir slíkum myndum frá ársvæðum félagsins. Á haustmánuðum munum við síðan velja bestu veiðimyndirnar og verðlauna myndasmiðina með veiðileyfum á næsta veiðisumri. Myndirnar viljum við einnig nota til kynningar á starfsemi SVFR, auk þess sem okkur langar til að setja saman myndband frá veiðisumrinu 2018 og sýna á 80 ára afmæli félagsins næsta vor.
Margir félagsmenn luma á frábæru myndefni og sumir nostra álíka mikið við veiðidótið og myndavélarnar sínar. Sumir eiga vatnshelda síma eða aðrar græjur til að taka myndir í miklum gæðum og aðrir jafnvel dróna sem sýna veiðistaði á nýstárlegan og skemmtilegan hátt.
Myndirnar þurfa að berast okkur á [email protected] í fullri upplausn, auk þess sem best er að þær séu teknar þvert (landscape) en ekki langsum (portait). Með því að að taka þátt í verkefninu heimila veiðimenn félaginu birtingu og afnot af myndefninu í ofangreindum tilgangi án sérstakrar greiðslu.