Samstaða gegn sjókvíaeldi!

Mynd frá Hrútafjarðará: Hjörleifur Hannesson

Eldislax sem sleppur úr sjókvíum, laxalús og sýkingar eru í dag stærstu ógnirnar við villtan lax í Noregi. Hér á landi er notast við sömu tækni og fyrirtækin eru einnig þau sömu. Nýlegt umhverfisslys í sjókví Arctic Fish í Patreksfirði sýnir vel að staðan er sú sama hér. Eldislaxar synda nú upp í margar af þekktustu ám landsins og eru nú þegar farnir að para sig við villtan lax til að hrygna.

Villtum Atlantshafslaxi hefur fækkað um 70% á undanförnum áratugum. Íslenskar ár hafa ekki lent jafn illa í því og ár í öðrum löndum, en sú staða er því miður að breytast, ef ekki verður gripið strax í taumana.

Laxalús er eitt stærsta vandamálið í sjókvíaeldi. Ekki einungis fyrir eldislaxinn í kvíunum, heldur einnig fyrir villtan lax og laxaseiði sem þurfa að synda í gegnum lúsager. Lúsin fjölgar sér óstjórnlega í kvíum og étur laxinn lifandi. Villt laxaseiði, á ferð sinni yfir hafið eru sérstaklega viðkvæm fyrir lúsinni og getur hún því haft neikvæð áhrif á afkomu og endurheimt villtra laxa1. Matvælastofnun hélt því fram að lús yrði aldrei vandamál á Íslandi. Annað hefur komið á daginn, og nú hefur þurft að nota skordýraeitur í íslenskum fjörðum 33 sinnum á skömmum tíma.

2.250 lögbýli á Íslandi treysta á tekjur af laxveiðiám og í mörgum tilfellum væri ekki hægt að halda úti búi ef býlin hefðu ekki þessar tekjur. Einnig treysta leigutakar, leiðsögufólk, matreiðslufólk, þjónar og bílstjórar á tekjur af laxveiðiám. Ef erfðablöndun vegna strokulaxa eykst, minnkar afkomuhæfni villtu stofnanna og á endanum munu þeir deyja þeir út þar sem að þeir eru ekki lengur hæfir til að lifa í sínu náttúrulega umhverfi. Líffræðilegum fjöbreytileika Íslands og lífsviðurværi fjölda fólks stafar því bein hætta af sjókvíaeldi.

 

Hvað getur þú gert?

  • Þann 7. október munu bændur og landeigendur alls staðar af landinu, ásamt breiðum hóp stuðningsmanna og náttúruverndarsinna fjölmenna á Austurvöll og krefjast þess að stjórnvöld stöðvi þennan mengandi iðnað. Við hvetjum þig og alla þína til að mæta og sýna stuðning. Það er nú eða aldrei. Erfðablöndun er þegar hafin í íslenskum ám og umhverfisslysin hrannast upp hjá sjókvíaeldisiðnaðinum. Við þurfum að sýna ráðamönnum að norskir auðmenn komast ekki upp með arðrán og yfirgang, sem mun eyðileggja íslenska náttúru og villtan lax. Hér er hlekkur með frekari upplýsingum um mótmælin: https://www.facebook.com/events/844374740559925?ref=newsfeed

 

  • Undirskriftasöfnun stendur yfir þar sem þess er krafist að þessi mengandi iðnaður verði bannaður. Sýndu stuðning með því að skrifa undir og deila því áfram á fólk í þínu tengslaneti. Það tekur einungis nokkrar sekúndur að skrifa undir og krafturinn felst í fjöldanum. https://nasf.is/syna-studning/

 

Með baráttukveðju,

SVFR

By Ingimundur Bergsson Fréttir