Samningur um urriðaparadís framlengdur

Urriðasvæðin í Laxá í Mývatnssveit og Laxárdal verða í umsjá Stangaveiðifélags Reykjavíkur næstu árin, samkvæmt nýjum samningi milli SVFR og Veiðifélags Laxár og Krákár. SVFR hefur haft umsjón með þessum ótrúlegu veiðisvæðum í 10 ár og samstarfið hefur gengið frábærlega. Aðdáendahópur svæðanna hefur stækkað jafnt og þétt, enda er veiðisvæðið magnað og geymir hundruð – ef ekki þúsundir – merktra og ómerktra veiðistaða. Svæðið er fjölbreytt og spennandi, þar er fullt af fiski og það er eilífðarverkefni að kynnast því öllu.

Bragi Finnbogason, formaður Veiðifélags Laxár og Krákár vonar að veiðar á svæðinu haldi áfram að gleðja veiðimenn og samningurinn við SVFR verði eigendum árinnar til hagsbóta.

Samstarfið undanfarin áratug hafi verið gott og það sé ánægjulegt að sjá að Stangaveiðifélagið sýni svæðinu virðingu. „Við hlökkum líka til að bjóða veiðimönnum upp á glænýtt veiðihús í Laxárdal, sem verður tekið í notkun í vor. Þar er öll aðstaða fyrsta flokks og mun gera heimsókn í Dalinn enn eftirminnilegri en ella. Þá hefur SVFR fengið nýjan rekstraraðila að veiðihúsinu Hofi í Mývatnssveit sem við bindum miklar vonir við,” segir Bragi.

Ásókn í veiðileyfi í Laxá hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár. Mývatnssveitin er svo til uppseld á komandi sumri og sala í Laxárdal hefur aukist verulega. Sífellt fleiri eru að kynnast töfrum Dalsins, samhliða því sem veiði hefur glæðst eftir nokkur erfið ár og nýtt veiðihús laðar marga til sín.

“Þessi nýi samningur gerir okkur kleift að halda áfram starfi undanfarinna ára, rækta samstarfið við okkar félagsmenn og við landeigendur á svæðinu. Við hlökkum til, enda er veiðisvæðið einstakt á heimsvísu. Við horfum björtum augum til sumarsins, þar sem heimamenn hafa séð í náttúrunni ýmis jákvæð merki sem gefa til kynna gott ástand í lífríkinu. Fuglalíf að vori er í miklum blóma og nú teljum við niður dagana fram að opnun,” segir Jón Þór Ólason, formaður SVFR.

SVFR hefur nú endurnýjað samninga um öll sín helstu veiðisvæði eða gert nýja, m.a. Langá, Haukadalsá, Straumfjarðará, Laugardalsá, Gljúfurá og lykilsvæði í Soginu.

By admin Fréttir