Perlan í Þistilfirði

Árnefnd Sandár lokaði ánni um liðna helgi, samkvæmt  venju fóru menn til veiða þegar færi gafst á milli verkefna og vinnu við frágang.

Vel hefur gengið í Sandá í sumar og veiddust í henni 336 laxar, meðal lengd veiddra laxa var 72cm og var 99% veiddra laxa sleppt aftur. 7 Hnúðlaxar voru skráðir í Sandá í sumar.

Aflahæsti veiðistaður í Sandá var Ólafshylur með 42 laxa og næstur á eftir var Efri þriggjalaxahylur með 41 lax. Aflahæsta flugan var Sunray shadow. Þess má geta að Sandá er aflahæst áa í Þistilfirðinum þetta sumarið, veiðin hefur verið mjög jöfn í sumar.

15 ára með stærsta lax sumarsins úr Sandá.

Í loka hollinu veiddi Guðmundur Ingi 15 ára, með föður sínum en faðir hans er Eiður Pétursson formaður árnefndar Sandár. Guðmundur Ingi gerði sér lítið fyrir í lokahollinu og veiddi stærsta fisk sumarsins í  Sandá. 97 cm hæng í ‘Olafshyl. Þeir feðgar höfðu séð þennan stóra hæng kvöldið áður og kastað á hann ítrekað, uppskáru þó tvær hrygnur af þeim bletti sem þeir sáu hænginn á og líklega hefur hann verið orðinn frekar skapillur eftir allt þetta vesen.

Guðmundur tók þann stóra á sunray orange plasttúpu, þeir feðgar hnýta þessa útgáfu sjálfir og kalla hana oft í góðra vina hópi “Sharp seven” og eins og nafnið gefur til kynna er þessi útgáfa bara til afnota fyrir þá sem nenna að vakna klukkan 7 á morgnana þegar menn eru við veiðar.

Hér fyrir neðan eru myndir af Guðmundi með þennan stórglæsilega hæng og myndir af Eiði árnefndarformanni með spúsurnar hans

By Hjörleifur Steinarsson Fréttir