Örfréttir af svæðum SVFR

Bjarki Bóasson með 94cm hæng úr Elliðaánum.

Laxveiðin hefur farið vel af stað og eru sterkar göngur í ár á vesturlandi áberandi síðustu daga og vikur. Hér er stutt yfirlit yfir hvað er að gerast á svæðunum okkar.

Elliðaár
Fara mjög vel af stað en það eru áberandi sterkar göngur undanfarið og 212 laxar komnir á land. Stærsti laxinn var 94 cm hængur sem veiddist í Kerlingaflúðum og 1237 laxar eru gegnir upp um teljarann – þar af 249 í dag!

Flekkudalsá
Vætusamt sumar er veiðimönnum í Flekkudalsá kærkomið og eru veiðitölur eftir því en þar eru 20 laxar komnir á land. Stærsti laxinn er 80 cm hrygna sem veiddist í Tungufljóti.

Gljúfurá
Fer ágætlega af stað með 25 laxa skráða í bók og er fiskurinn dreifður um alla á. Góðar rigningar eru í spánni og eiga næstu holl von á góðu þar. Stærsti laxinn er 68cm hrygna sem veiddist í Tunnunni.

Haukadalsá
Góður gangur hefur verið í veiðinni í Haukadalsá og eru 80 laxar komnir á land en á sama tíma í fyrra voru 60 laxar komnir á land. Stærstu laxarnir eru báðir 85 cm og veiddust í Lalla, annar á Collie Dog og hinn á svartan Frances.

Korpa
Flottur gangur er í Korpu og eru 53 laxar komnir á stangirnar tvær og 413 upp teljarann – þar af 39 í dag!  Þrír 70 cm laxar hafa veiðst og komu tveir á land á Breiðunni og einn í Þjófahyl. Gaman er að segja frá því að 94 cm lax gekk í gegnum teljarann fyrir nokkrum dögum, spurning hvort að hann bíði eftir veiðimönnum í Stokkunum eða hvort að hann hafi horfið upp í áttina að Hafravatni.

Langá
Langá fer vel af stað og hafa göngur síðustu daga verið afar sterkar. Því til stuðnings eru 970 laxar gegnir upp teljarann í Skuggafossi og 426 af þeim gengu í gær. Það fer rúmlega helmingur af göngunni upp fossinn í staðinn fyrir að fara teljarann. Alls eru 211 laxar komnir á land í Langá en stærsti laxinn er 83 cm hængur sem veiddist í Lækjarósi á svartan frances cone #14.

Heiðar Valur Bergmann sleppir laxi í Langá / Ljósmynd Tryggvi Þór Hilmarsson

Laugardalsá
Sumarið fer vel af stað í Laugardalsá og eru komnir 16 laxar í bók ásamt 76 silungum. Alls hafa 98 laxar gengið upp teljarann og ganga fiskar daglega upp. Stærsti fiskurinn sem hefur gengið upp teljarann veiddist í Dagmálafljóti og mældist 87cm, hann  tók Sunray.

Leirvogsá
Ekki er frábær byrjun  í Leirvogsá, 29 laxar eru komnir á land á stangirnar tvær. Áin hefur verið í ágætu vatni og er spurning hvort að fiskurinn stoppi ekkert á sínum hefðbundnu stöðum og straujar uppeftir. Stærsti laxinn veiddist í Kvörninni á maðk, hann var 81cm.

Miðá
Það er góður gangur í Miðá og eru 26 laxar komnir í bók ásamt þremur sjóbleikjum. Eins og aðrar ár á Vesturlandi nýtur Miðá góðs af rigningum síðustu daga og er í mjög flottu vatni. Stærsti laxinn er 69cm hængur sem tók Monkey Fly í Símastreng.

Sandá 
Sandá fer heldur rólegri af stað heldur en í fyrra en það eru 29 laxar komnir á land miðað við 39 á sama tíma í fyrra. Meðalstærðin er það sem veiðimenn sækjast eftir í Sandá og er hún 77 cm og 5 kg! Stærsti laxinn er 87 cm hængur sem tók Sunray á Fossbrotinu.

Þverá í Haukadal
Þó að aðeins einn fiskur hafi ratað í veiðibókina á Angling IQ vitum við af þónokkrum fleiri sem hafa veiðst. Gott vatnsmagn gefur laxinum greiða leið upp á dal og hvetjum við veiðimenn eindregið til að ganga upp að efstu veiðistöðum þó að gangan sé krefjandi. Stærsti fiskurinn sem hefur komið á land er 80 cm hængur sem veiddist í neðsta fossinum í neðra gilinu.

 

Silungsveiðin er mjög góð framan af sumri, hér er smá um hver svæði.

Brúará í landi Sels
Mjóg góð veiði hefur verið í Brúará undanfarið og oftar en ekki er fiskurinn mjög vænn. Núna er sjóbleikjan  mætt og besti tíminn framundan en ekki skemmir að veiðileyfið kostar aðeins 5000kr fyrir félagsmenn.

Falleg bleikja úr Brúará ( Ljósmynd Sindri Jónsson

Flókadalsá í Fljótum
Mikil snjóbráð hefur sett strik í reikninginn fyrir norðan er það er bleikja að ganga upp. Um leið og það sjatnar í ánni fer veiðin að glæðast. Við heyrðum af veiðimanni um daginn sem veiddi 7 bleikjur og helst í stöðum 7 og 13 sem jafnframt eru einir bestu veiðistaðirnir í Flókadalsá.

Gufudalsá 
Við höfum heyrt af góðri veiði undanfarið í Gufudalsá en veiðiskráning er því miður afleit. Við biðlum til veiðimanna, sem þar hafa verið í sumar, að skrá í veiðibókina í AnglingIQ appinu

Laxá í Mývatnssveit
Mývatnssveitin hefur verið afar góð í sumar þrátt fyrir miklar sveiflur í veðurfari. Alls hafa veiðst 1891 urriðar og 54 bleikjur á svæðinu en stærsti urriðinn er 72cm dreki sem veiddist í Hólsdrætti. Alls eru 6 urriðar komnir á land sem eru 70 cm og stærri!

Laxá í Laxárdal
Laxárdalurinn hefur verið mjög góður í ár og eins og þekkt er er fiskurinn afar stór. Það eru 527 urriðar og 18 bleikjur komnar í bók, stærsti urriðinn er 75cm og veiddist á Nauteyri.  Þá eru komnir 14 urriðar yfir 70 cm sem er ekkert minna en rosalegt!

Hann er kominn í háfinn! / Ljómynd – Kvennanefnd SVFR

Vefsalan okkar er alltaf opin – Smellið hér til að skoða laus leyfi! 

 

By Árni Kristinn Skúlason Fréttir