Laxveiðin hefur farið vel af stað og eru sterkar göngur í ár á vesturlandi áberandi síðustu daga og vikur. Hér er stutt yfirlit yfir hvað er að gerast á svæðunum okkar.
Elliðaár
Fara mjög vel af stað en það eru áberandi sterkar göngur undanfarið og 212 laxar komnir á land. Stærsti laxinn var 94 cm hængur sem veiddist í Kerlingaflúðum og 1237 laxar eru gegnir upp um teljarann – þar af 249 í dag!
Flekkudalsá
Vætusamt sumar er veiðimönnum í Flekkudalsá kærkomið og eru veiðitölur eftir því en þar eru 20 laxar komnir á land. Stærsti laxinn er 80 cm hrygna sem veiddist í Tungufljóti.
Gljúfurá
Fer ágætlega af stað með 25 laxa skráða í bók og er fiskurinn dreifður um alla á. Góðar rigningar eru í spánni og eiga næstu holl von á góðu þar. Stærsti laxinn er 68cm hrygna sem veiddist í Tunnunni.
Haukadalsá
Góður gangur hefur verið í veiðinni í Haukadalsá og eru 80 laxar komnir á land en á sama tíma í fyrra voru 60 laxar komnir á land. Stærstu laxarnir eru báðir 85 cm og veiddust í Lalla, annar á Collie Dog og hinn á svartan Frances.
Korpa
Flottur gangur er í Korpu og eru 53 laxar komnir á stangirnar tvær og 413 upp teljarann – þar af 39 í dag! Þrír 70 cm laxar hafa veiðst og komu tveir á land á Breiðunni og einn í Þjófahyl. Gaman er að segja frá því að 94 cm lax gekk í gegnum teljarann fyrir nokkrum dögum, spurning hvort að hann bíði eftir veiðimönnum í Stokkunum eða hvort að hann hafi horfið upp í áttina að Hafravatni.
Langá
Langá fer vel af stað og hafa göngur síðustu daga verið afar sterkar. Því til stuðnings eru 970 laxar gegnir upp teljarann í Skuggafossi og 426 af þeim gengu í gær. Það fer rúmlega helmingur af göngunni upp fossinn í staðinn fyrir að fara teljarann. Alls eru 211 laxar komnir á land í Langá en stærsti laxinn er 83 cm hængur sem veiddist í Lækjarósi á svartan frances cone #14.
Laugardalsá
Sumarið fer vel af stað í Laugardalsá og eru komnir 16 laxar í bók ásamt 76 silungum. Alls hafa 98 laxar gengið upp teljarann og ganga fiskar daglega upp. Stærsti fiskurinn sem hefur gengið upp teljarann veiddist í Dagmálafljóti og mældist 87cm, hann tók Sunray.
Leirvogsá
Ekki er frábær byrjun í Leirvogsá, 29 laxar eru komnir á land á stangirnar tvær. Áin hefur verið í ágætu vatni og er spurning hvort að fiskurinn stoppi ekkert á sínum hefðbundnu stöðum og straujar uppeftir. Stærsti laxinn veiddist í Kvörninni á maðk, hann var 81cm.
Miðá
Það er góður gangur í Miðá og eru 26 laxar komnir í bók ásamt þremur sjóbleikjum. Eins og aðrar ár á Vesturlandi nýtur Miðá góðs af rigningum síðustu daga og er í mjög flottu vatni. Stærsti laxinn er 69cm hængur sem tók Monkey Fly í Símastreng.
Sandá
Sandá fer heldur rólegri af stað heldur en í fyrra en það eru 29 laxar komnir á land miðað við 39 á sama tíma í fyrra. Meðalstærðin er það sem veiðimenn sækjast eftir í Sandá og er hún 77 cm og 5 kg! Stærsti laxinn er 87 cm hængur sem tók Sunray á Fossbrotinu.
Þverá í Haukadal
Þó að aðeins einn fiskur hafi ratað í veiðibókina á Angling IQ vitum við af þónokkrum fleiri sem hafa veiðst. Gott vatnsmagn gefur laxinum greiða leið upp á dal og hvetjum við veiðimenn eindregið til að ganga upp að efstu veiðistöðum þó að gangan sé krefjandi. Stærsti fiskurinn sem hefur komið á land er 80 cm hængur sem veiddist í neðsta fossinum í neðra gilinu.
Silungsveiðin er mjög góð framan af sumri, hér er smá um hver svæði.
Brúará í landi Sels
Mjóg góð veiði hefur verið í Brúará undanfarið og oftar en ekki er fiskurinn mjög vænn. Núna er sjóbleikjan mætt og besti tíminn framundan en ekki skemmir að veiðileyfið kostar aðeins 5000kr fyrir félagsmenn.
Flókadalsá í Fljótum
Mikil snjóbráð hefur sett strik í reikninginn fyrir norðan er það er bleikja að ganga upp. Um leið og það sjatnar í ánni fer veiðin að glæðast. Við heyrðum af veiðimanni um daginn sem veiddi 7 bleikjur og helst í stöðum 7 og 13 sem jafnframt eru einir bestu veiðistaðirnir í Flókadalsá.
Gufudalsá
Við höfum heyrt af góðri veiði undanfarið í Gufudalsá en veiðiskráning er því miður afleit. Við biðlum til veiðimanna, sem þar hafa verið í sumar, að skrá í veiðibókina í AnglingIQ appinu
Laxá í Mývatnssveit
Mývatnssveitin hefur verið afar góð í sumar þrátt fyrir miklar sveiflur í veðurfari. Alls hafa veiðst 1891 urriðar og 54 bleikjur á svæðinu en stærsti urriðinn er 72cm dreki sem veiddist í Hólsdrætti. Alls eru 6 urriðar komnir á land sem eru 70 cm og stærri!
Laxá í Laxárdal
Laxárdalurinn hefur verið mjög góður í ár og eins og þekkt er er fiskurinn afar stór. Það eru 527 urriðar og 18 bleikjur komnar í bók, stærsti urriðinn er 75cm og veiddist á Nauteyri. Þá eru komnir 14 urriðar yfir 70 cm sem er ekkert minna en rosalegt!
Vefsalan okkar er alltaf opin – Smellið hér til að skoða laus leyfi!