Örfréttir af svæðum SVFR

Einn kominn í soðið / Mynd Einar Rafnsson

Vikuveiðin á svæðum SVFR var misgóð en nóg líf er á langflestum svæðum SVFR. Þar sem september er handan við hornið færist oft mikið fjör í leikinn og stóru hængarnir verða reiðir og fara að taka flugur veiðimanna. Ef þið lumið á flottum myndum frá svæðum SVFR megið þið endilega senda þær með stuttum texta á [email protected]

 

Elliðaár
52 laxar komu á land í Elliðaámum í síðustu viku og hafa 695 laxar veiðst alls í Elliðaánum sem er afar góð veiði. Elliðaárnar eru uppseldar í ár.

Trausti Hafliðason með fallega 87cm hrygnu úr Elliðaánum / Mynd Trausti Hafliðason

Flekkudalsá
Hægst hefur á veiðinni í Flekkudalsá en það er töluvert af laxi á svæðinu, núna er töluvert af sjóbirting að ganga og veiddist í vikunni einn 72cm. Alls eru 125 laxar komnir á land í Flekkudalsá sem er uppseld í ár.

Gljúfurá
Veiðin er róleg í Gljúfurá en það er töluvert af fiski á svæðinu og eru 117 laxar komnir á land. Áin á mikið inni í ár og er oft afar öflug í september. Við eigum eitt holl eftir í Gljúfurá, þau má sjá hér.

Haukadalsá
307 laxar eru komnir á land og er mikið af fiski á svæðinu en hann er tregur til töku. Haukadalsá er uppseld í ár.

Korpa/Úlfarsá
Góð veiði hefur verið í Korpu síðustu daga en skráning í veiðibók er afar slæm, enginn fiskur hefur verið skráður síðan 17. ágúst en þá veiddust 10 laxar á stangirnar tvær. Alls eru 183 laxar komnir í bók og er fiskurinn vel dreifður um allt svæðið, við hvetjum veiðimenn að prófa svæðið þar sem Korpa rennur úr Hafravatni en það geymir oft mikið af laxi á haustin og er nær ósnert.

Langá
Áfram veiðist vel í Langá og eru 927 laxar komnir á land. Mikið er af laxi í ánni og er hann vel dreifður um öll svæði.  Nokkur leyfi eru eftir í Langá og má sjá þau hér.

Valdimar Hilmarsson með 89cm hæng úr Langá ( Mynd Valdimar Hilmarsson

Langá – Efsta svæðið
Góður gangur hefur verið í veiðinni, veiðistaður E-111 er áberandi bestur og veiðist bæði lax og bleikja þar. Uppselt er á efsta svæðið.

Laugardalsá
Alls eru 72 laxar komnir á land og er talsvert af fiski á svæðinu.  Í vefsölunni okkar er að finna tvö laus holl í Laugardalsá í september sem sjá má HÉR.

Leirvogsá
Góð veiði er í Leirvogsá er samkvæmt veiðimönnum er mikið af laxi á svæðinu og þá sérstaklega á eyrunum fyrir ofan veiðihús. Alls eru komnir 192 laxar á land ásamt 45 sjóbirtingum. Við eigum lausa septemberdaga í vefsölunni – sjá HÉR.

Rauðabergshylur í Leirvogsá / Mynd Bæring Jón Guðmundsson

Miðá
Góð veiði er í Miðá og eru 153 laxar komnir á land. Góður kippur kom í bleikjuveiðina og mikið hefur veiðst af fallegri bleikju á veiðistaðnum Breiðanesi. Við eigum ennþá laus holl í september í Miðá og má sjá þau hér.

Sandá
Afar góð veiði er í Sandá og eru 311 laxar komnir á land, núna í súðustu viku kom 100cm hrygna á land eins og við sögðum frá. Það eru tvö holl laust í september og er það hér.

Þverá í Haukadal
Það vantar ekki fiskinn í Þverá, en veiðiskráningin er léleg. Enginn lax hefur verið skráð í bók síðastliðna viku. Þverá er uppseld í ár.

 

Brúará í landi Sels
Góður gangur er í Brúará og er fyrsti laxinn kominn á land, það var 82cm hrygna sem tók svartan toby í Hrafnaklettum. Ennþá eru að veiðast nýjar sjóbleikjur þó að sú staðbundna er farin að huga að hrygningu.   Laus leyfi er að finna í HÉR.

David Lindsley ásamt Ragnari Danner leiðsögumanni með fyrsta laxinn úr Brúará / Mynd Raggi Danner

Flókadalsá í Fljótum
Tíðindalítið hefur verið í Flókadalsá síðustu vikur þó bleikjan sé svo sannarlega til staðar. Mesta veiðin þessa dagana er á efstu stöðunum.  Við eigum nokkur holl eftir í september sjá HÉR.

Gufudalsá
Eftir því sem við best vitum hefur veiðin haldist nokkuð stöðug að undanförnu í Gufudalsánni en það er greinilegt að rafræna veiðibókin á ekki upp á pallborðið hjá öllum því skráningin heldur áfram að vera afspyrnu léleg sem okkur þykir miður. Gufudalsá er uppseld.

Laxá í Mývatnssveit
Bráðum lýkur frábæru tímabili í Mývatnssveit en síðasti veiðidagurinn er 25. ágúst, veiðin stendur í 3408 urriðum og 64 bleikjum. Stórir fiskar verða meira og meira áberandi á hverju ári. Það er laust síðustu tvo dagana, smellið hér til að fara á vefsöluna.

By Árni Kristinn Skúlason Fréttir