Örfréttir af svæðum SVFR

Fallegur lax sem er kominn í haustlitina / Mynd Bjarki Bóasson

Elliðaár
Alls eru 643 laxar komnir á land í Elliðaánum og er veiðin komin yfir heildarveiði síðasta sumars (625). Frá 15. ágúst verður veitt á fjórar stangir í Elliðaánum og eru þær uppseldar í ár.

Flekkudalsá
Áfram er góð veiði í Flekkudalsá og hafa 121 laxar veiðst, gaman er að segja frá því að veiðistaðurinn Jónsbakki er teppalagður af laxi að sögn veiðimanna, þar hafa veiðst 41 laxar í sumar! Flekkudalsá er uppseld í ár.

Gljúfurá
Veiðin er róleg í Gljúfurá en alltaf veiðast laxar á hverjum degi ásamt pattaralegum sjóbirtingum. Skrifstofan heyrði frá veiðimönnum um daginn sem sögðu ánna fulla af laxi sem vill ekki taka, það gæti breyst á hverri stundu. Alls eru 112 laxar komnir á land. Fyrir áhugasama eigum við tvö laus holl seint í september sem sjá má HÉR.

Haukadalsá
Áfram heldur Haukan sínu striki, það er mikið af laxi í ánni en hægst hefur aðeins á tökunni eins og þekkt er í ám á Vesturlandi í ágúst. Alls eru 282 laxar komnir á land. Haukadalsá er uppseld í ár.

Korpa/Úlfarsá
165 laxar eru komnir í bók og margir veiðistaðir eru fullir af laxi. Í fyrra endaði Korpa í 173 löxum en allar líkur eru á því að hún fari yfir 200 í ár. Korpa er uppseld.

Langá
Langá er í toppvatni og er nóg af fiski á svæðinu, alls hafa 851 laxar veiðst og er mikið af laxi á svæðinu. Hægst hefur á göngum en það ganga nýjr laxar inn á hverju flóði.  Þess má geta að lausum dögum fer ört fækkandi og því um að gera að tryggja sé stöng tímanlega en HÉR má sjá lausar dagsetningar.

Fallegur smálax úr Langá / Mynd Ísarr Edwinsson

Langá – Efsta svæðið
Ágæt bleikjuveiði hefur verið síðustu daga og eykst laxgengdin með hverjum deginum á svæðinu, við heyrðum í Halldóri Snæland sem var þar um daginn og fékk tvo fallega hænga og setti í fleiri. Að hans sögn var slatta af lífi á svæðinu. Efsta svæðið í Langá er uppselt í ár.

Laugardalsá
Vikuveiðin í Laugardalnum var 12 laxar, mikið er af laxi í ánni en lang mest af þeim eru í Dagmálafljóti og Blámýrarfljóti. Í vefsölunni okkar er að finna tvö laus holl í Laugardalsá í september sem sjá má HÉR.

Leirvogsá
Síðasta vika var góð í Leirvogsá og hafa veiðst 171 laxar ásamt 43 birtingum og einum hnúðlaxi. Núna fara efri svæðin að koma sterk inn og er mikið af fiski í gljúfrunum fyrir neðan Tröllafoss. Við eigum fjóra lausa septemberdaga í vefsölunni – sjá HÉR.

Miðá
“Það er galið mikið af fiski þarna” Sagði Bjarki Þór Hilmarsson sem var að veiða í Miðá í vikunni, allir staðir eru fullir af laxi en takan var lítil. Alls eru 140 laxar komnir á land í Miðá. Vekjum athygli á að hollið 28.-30. ágúst var að koma í endursölu en við eigum einnig þrjú holl í september.

Hugarró á fallegri kvökdstund við Miðá / Mynd Bjarki Þór Hilmarsson

Sandá
Sandá er á góðu róli og eru 282 laxar komnir á land, nú er tími stórlaxanna handan við hornið og enn eru tvö laus holl í september – sjá HÉR.

Þverá í Haukadal 
Það vantar ekki fiskinn í Þverá, en veiðiskráningin er léleg. Enginn lax hefur verið skráð í bók síðastliðna viku. Það eru lausir dagar á vefsölunni okkar, sjá HÉR.

 

Brúará í landi Sels
Góð veiði er í Brúará og hafa bleikjur um og yfir 50cm veiðst síðustu daga, núna fer að koma besti tíminn í laxinn og hafa sést laxar á nokkrum stöðum.  Laus leyfi er að finna í HÉR.

Ríkarður Hjármarsson með fallega bleikju úr Brúará / Mynd Ríkarður Hjálmarsson

Flókadalsá í Fljótum
Tíðindalítið hefur verið í Flókadalsá síðustu vikur þó bleikjan sé svo sannarlega til staðar. Aðstæður ættu nú að vera orðnar talsvert betri þar sem jafnvægi hefur verið að komast á vatnsmagnið svo vonandi fer að birta til. Við eigum nokkur holl eftir í september sjá HÉR.

Gufudalsá
Eftir því sem við best vitum hefur veiðin haldist nokkuð stöðug að undanförnu í Gufudalsánni en það er greinilegt að rafræna veiðibókin á ekki upp á pallborðið hjá öllum því skráningin heldur áfram að vera afspyrnu léleg sem okkur þykir miður. Gufudalsá er uppseld.

Laxá í Mývatnssveit
Afar góð veiði hefur verið í sumar og eru 3332 urriðar komnir á land ásamt 63 bleikjum. Mývatnssveitin lokar 25. ágúst og er síðasti séns að fara í paradísina, lausar stangir má sjá HÉR.

Laxá í Laxárdal
Tímabilinu í Laxárdal er lokið, góð veiði var í sumar og mikið af stórum fiskum veiddust en gaman var að sjá “nýliðun” þar sem hellingur af minni fiskum veiddust miðað við síðustu ár. Lokatalan í Laxárdal er 863 urriðar og 22 bleikjur, sem er frábær veiði.  Meðalstærð urriðans í dalnum er 58cm og sá stærsti sem kom á land var 75cm.

Ísak Vilhjálmsson með alvöru höfðingja úr Laxá í Mývatnssveit / Mynd Ísak Vilhjálmsson
By SVFR ritstjórn Fréttir