Örfréttir af svæðum SVFR

Birgir Ólafsson með 91cm hrygnu úr Haukadalsá / mynd Birgir Ólafsson

Elliðaár
Frábær veiði hefur verið í Elliðaánum og hafa 529 laxar veiðst, heildarveiðin í fyrra var 625 laxar og verður það líklega toppað eftir tvær vikur! 2611 hafa gengið upp teljarann og núna er sjóbirtingurinn að byrja að ganga að krafti. Elliðaárnar eru uppseldar í ár.

Flekkudalsá
Flekkan er á mjög góðu skriði þessa dagana og eru komnir 85 laxar ásamt 8 sjóbirtingum á land. Dagana 30. og 31. júlí komu 20 laxar á land! Flekkudalsá er uppseld í ár.

Gljúfurá
Ágætis veiði hefur verið síðustu daga og hafa 77 laxar ásamt 20 urriðum veiðst. Við minnum á hollið 5-7 ágúst sem er laust, en einnig eru til holl í september.

Haukadalsá
Afar góð veiði hefur verið síðustu daga og er áin komin í 223 laxa, stærsti laxinn til þessa kom á land í gær en það var 91cm hrygna úr Torfastreng, hún tók fluguna Von #16. Við eigum holl 6-8 ágúst sem er skipt í stakar stangir!

Korpa
Eins og flestar aðrar ár er betri veiði í Korpunni í ár, alls hafa veiðst 125 laxar veiðst á stangirnar tvær. Á sama tíma í fyrra voru 98 laxar komnir á land. Korpan er uppseld í ár.

Langá
Hörkuveiði er í Langá og er ennþá fiskur að ganga á hverju flóði, alls eru 663 laxar komnir í bók. Í fyrra voru lokatölur 709 laxar, það eru allar líkur á því að Langá nái því í næstu viku! Við eigum laus leyfi í Langá á vefsölunni.

Laugardalsá
Enn er ágætur gangur upp teljarann í Laugardalsá, alls hafa 32 laxar veiðst en talað er um að mikið sé af fiski á svæðinu þí að takan sé ekki góð. Það á að rigna talsvert um helgina og vonandi gefur rigningin fjör í leikinn. Það eru tvö laus holl í september, sem er frábær tími.

Leirvogsá
Frábær veiði er í Leirvogsá og er hún komin í 144 laxa, fiskurinn mætti seint í ár en núna er allt komið á fullt. Gaman er að segja frá því að 33 sjóbirtingar hafa veiðst og eru þeir afar vænir. Það eru örfáir dagar eftir í september.

Miðá
Vikan var mjög góð í Miðánni, það eru komnir 123 laxar á land ásamt 14 bleikjum. Við viljum minna veiðimenn á að frá 1. ágúst er eingöngu veitt á flugu. Það eru ennþá laus holl til í september í Miðá.

Sandá 
Áfram er frábær veiði í Sandá og eru 205 laxar komnir á land, meðalstærðin er 65cm og er stór smálax áberandi í veiðinni. Við eigum tvö holl eftir í september.

Þverá í Haukadal
Þrír laxar voru skráðir í bók síðustu vikuna, þá eru alls 8 komnir í bók. Gott vatn er í ánni og veiðimenn segja að það sé mikið af fiski á svæðinu.

Ragnheiður Thorsteinsson formaður SVFR með 82cm hrygnu úr Elliðaánum / Mynd Einar Rafnsson

 

Brúará í landi Sels
Góð veiði hefur verið í Brúará, Dynjandi og Fosspotturinn eru fullir af sjóbleikju. Laxinn er mættur en enginn hefur veiðst. Laus leyfi eru á vefsölunni.

Flókadalsá í Fljótum
Frekar rólegt er yfir veiðinni en þó ert slatti af bleikju á svæðinu, veiðimenn eru að fá bleikjur gjarnan á milli veiðistaða þar sem áin hefur verið frekar vatnsmikil í sumar en er að detta í gott vatn.

Jóhann Sigurður Þorbjörnsson með væna bleikju á í Flókadalsá / Mynd Jóhann

Gufudalsá 
Góð veiði hefur verið síðustu daga í Gufudalsá, 38 bleikjur og einn lax eru í rafrænu veiðibókinni en það er talsvert meira skráð í veiðibókina í húsinu.

Laxá í Mývatnssveit
Frábær veiði er á svæðinu og eru 2782 urriðar komnir á land ásamt 59 bleikjum.  Við eigum stangir til í Mývatnssveit í ágúst.

Laxá í Laxárdal
Dalurinn hefur verið góður síðustu daga og er heildarveiðin komin í 741 urriða og 20 bleikjur. Það er laust í dalnum á næstu dögum!

Birkir Mar með 68cm urriða úr Laxárdal / Mynd Birkir Mar
By Árni Kristinn Skúlason Fréttir