Síðasta vika hefur verið viðburðarík í veiðinni, eftir miklar sveiflur í veðurfari, en að þessu sinni nýtur laxinn góðs af því. Næsta vika verður án efa spennandi því stórstreymt er á þriðjudaginn og veðurspáin góð. Hér koma nokkrir punktar um ársvæðin okkar:
Elliðaár
Hörkuveiði hefur verið í Elliðaánum og eru þær bókstaflega fullar af laxi en síðasta föstudag gengu hvorki meira né minna en 440 laxar í gegnum teljarann sem er met! Það sem af er sumri hafa 2109 fiskar gengið í gegnum teljarann, mestmegnis laxar en einnig rígvænir sjóbirtingar. Alls eru komnir 347 laxar á land sem verður að teljast frábært!
Flekkudalsá
Flekkan hefur verið í ágætis gír, 38 laxar komnir á land og áin búin að jafna sig eftir heljardembuna síðustu helgi.
Gljúfurá
Veiðimenn líktu henni við Þjórsá í vatnavöxtunum síðustu helgi en núna er áin í frábæru vatni og fiskur um alla á. Það eru komnir 34 laxar á land og 7 urriðar. Þá er gaman að segja frá því að kominn er nýr og glæsilegur pottur við veiðihúsið.
Haukadalsá
Flott veiði hefur verið í Haukadalsá og eru 139 laxar komnir á land en á sama tíma í fyrra voru 82 laxar komnir á land þannig bætingin er umtalsverð! Áin er í kjörvatni og eigum við laus holl í byrjun ágúst.
Korpa
Korpan er í góðum gír og hafa veiðst 76 laxar en á sama tíma í fyrra voru 75 laxar komnir á land. Alls eru 535 fiskar gengnir upp teljarann og er það mest lax en einnig slatti af sjóbirting sem er oftar en ekki jafn vænn og laxinn.
Langá
Nóg hefur verið um að vera í Langá síðustu vikuna, teljarinn í Skuggafossi hefur talið 1451 lax og eins og margir vita þá gengur rúmlega helmingurinn upp fossinn og sleppir teljaranum. Alls hafa veiðst 339 laxar í Langá, í gær komu 29 laxar á land og miðvikudagurinn skilaði hvorki minna né meira en 42 löxum!
Laugardalsá
Heldur rólegt hefur verið í Laugardalsá síðustu daga en áin er komin í 23 laxa. Veðurfar síðustu daga hefur sett strik í reikninginn þar eins og á fleiri stöðum á vestanverðu landinu. Upp um teljarann eru komnir 170 fiskar og er meirihlutinn lax. Fróðir menn hafa haft á orði að laxinn sé mættur í djúpið fyrr en oft áður svo við bíðum spennt eftir næsta stóra straumi!
Leirvogsá
Góður kippur kom í Leirvogsá og er fiskur að veiðast um alla á. Alls eru 72 laxar komnir á land á stangirnar tvær og veiðist mest fyrir neðan þjóðveg sem eðlilegt er á þessum tíma árs.
Miðá
Sumarið fer mjög vel af stað í Miðá og eru 75 laxar komnir á land, á sama tíma í fyrra voru komnir 45 laxar á land. Sjóbleikjan er heldur seinni á ferð í ár, aðeins 9 eru komnar á land miðað við 75 í fyrra.
Sandá
Góður kippur er kominn í veiðina í Sandá og eru 81 laxar komnir á land og veiðin að aukast með hverjum degi sem líður. Á sama tíma í fyrra voru 61 laxar komnir á land. Meðalstærðin er 70cm og mikið um stóran og pattaralegan smálax.
Þverá í Haukadal
Alls hafa fimm fiskar verið skráðir í veiðibókina í Þverá en fiskurinn er kominn upp um alla á og ekki er von á vatnsskorti þar á næstunni!
Silungsveiði
Brúará í landi Sels
Sjóbleikjan er mætt og góð veiði hefur verið síðustu daga þó að bleikjan sé oft dyntótt eins og hún er þekkt fyrir í Brúará. Einnig er gaman að benda á að laxinn fer bráðum að mæta!
Flókadalsá í Fljótum
Lítið hefur heyrst úr Flókadalsá, áin hefur verið bólgin og lituð það sem er af sumri en þegar hún sjatnar fer veiðin á fullt. Veiðistaðir 7 og 13 eru öflugastir sem fyrr.
Gufudalsá
Við höfum heyrt af góðri veiði undanfarið í Gufudalsá en veiðiskráning er því miður léleg líkt og í síðustu viku. Áin fór í stórflóð síðustu helgi en ætti að vera búin að jafna sig núna. Við biðlum til veiðimanna, sem þar hafa verið í sumar, að skrá í veiðibókina í AnglingIQ appinu.
Laxá í Mývatnssveit
Veiðin í Mývatnssveit hefur verið mjög góð í ár og hefur meðalstærðin stækkað á síðustu árum. Alls hafa 2187 urriðar og 57 bleikjur veiðst og er meðalstærðin 52cm!
Laxá í Laxárdal
Þurrfluguveiðin hefur verið frábær síðustu daga í Laxárdal, 608 urriðar eru komnir á land og er meðalstærðin 58cm.
Viltu fara að veiða? Vefsalan okkar er opin allan sólarhringinn, smellið hér til að skoða laus leyfi!