Nýr viðburðastjóri SVFR

Það gleður okkur að tilkynna að stofnuð hefur verið viðburðanefnd hjá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur og er það engin önnur en hin stórskemmtilega Helga Gísladóttir sem skipuð hefur verið formaður nefndarinnar.

Hlutverk Helgu og nefndarinnar verður að halda utan um þá viðburði sem kvennanefnd, fræðslunefnd, viðburðanefnd og félagið almennt standa fyrir hverju sinni. Fljótlega mun viðburðadagatal verða birt á heimasíðu SVFR þar sem félagsmenn geta fylgst með því sem framundan er.  Á næstu dögum verður svo auglýst eftir fólki til þess að starfa með Helgu í viðburðanefndinni og hvetjum við alla áhugasama til að setja sig í samband við Helgu.

Óhætt er að segja Helga sé veiðimönnum og konum vel kunnug en í nokkur ár hefur hún haldið úti Instagram síðunni helgaveidir. Helga er alin upp á bökkum Þjórsár og hefur verið með veiðidelluna frá barnsaldri. Hún hefur sinnt leiðsögn og er útskrifuð úr veiðileiðsögunámi Ferðamálaskóla Íslands. Auk þessa hefur hún verið í árnefnd Laxár í Laxárdal og tekið virkan þátt í starfi kvennadeildar Stangaveiðifélagsins.

Stjórn SVFR býður Helgu hjartanlega velkomna.

By Eva María Grétarsdóttir Fréttir