NÖRDAVEISLA STANGÓ – 12. MARS Á ÖLVER
Nördaveislur Stangó halda áfram af fullum krafti. Næst á dagskrá er kvöld sem varpar ljósi á lífríkið í íslenskum ám og vötnum. Viðburðurinn fer fram miðvikudagskvöldið 12. mars á sportbarnum Ölver í Glæsibæ. Húsið opnar klukkan 19:00, dagskráin hefst klukkan 20:00 og stendur til 22:15.
NÁTTÚRAN Í NÁVÍGI – LÍKT EFTIR LÍFRÍKINU
Kvöldið byrjar á Skólabekknum þar sem sérfræðingurinn Hrafn Ágústsson veitir innsýn í fjölbreytt lífríki íslenskra áa og vatna. Hvað lifir undir yfirborðinu? Hvaða smádýr laða að sér silung og lax? Hrafn mun leiða gesti í gegnum undraheim skordýra sem móta lífið í vatnsföllunum.
Eftir fræðsluna gefst tækifæri til umræðu með Hrafni þar sem gestir geta spurt spurninga og fengið hagnýtar ráðleggingar um hvernig þekking á lífríkinu getur aukið árangur í veiði og hvernig við getum líkt eftir lífríkinu.
KÚLTÚRHORNIÐ – VEIÐIMENNING Í BREIÐU LJÓSI
Veiðimenning er meira en bara stangveiði – hún er list, arfleifð og lífsstíll. Í Kúltúrhorninu er veiðimenning tekin til skoðunar á skemmtilegan og fræðandi hátt. Við rýnum í sögur, hjátrú og helstu hefðir veiðimanna. Kúltúrhornið er staðurinn til að njóta góðra sagna, hlæja og fræðast um það sem gerir veiðina að svo miklu meira en bara sporti. Við fáum til okkar þaulvana silungsveiðimenn sem munu leyfa okkur að spyrja þá spjörunum úr, ásamt því að leyfa okkur að kíkja í fluguboxin þeirra. Eru þeir að líkja eftir lífríkinu?
Sívinsæli spurningaleikurinn Makkerinn verður á sínum stað með glæsilegum vinningi fyrir þá sem þekkja sinn fisk. Kvöldinu lýkur svo með stórglæsilegu happdrætti sem enginn veiðimaður vill missa af.
VIÐ SJÁUMST Á ÖLVER!
Nördaveislur Stangó eru fyrir alla – hvort sem þú ert að taka fyrstu kastsperrurnar eða veiðir eins og atvinnumaður. Komdu og vertu hluti af skemmtilegum hópi þar sem fróðleikur og fjör fara saman!
https://fb.me/e/7eHomea4c