Genginn er góður og dáður félagi í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur, veiðimaðurinn Árni Björn Jónasson. Af honum er mikill sjónarsviptir. Árni Björn var mikil félagsvera sem var ávallt reiðubúinn að leggja eitthvað á sig fyrir aðra án þess að gera kröfur um endurgjald. Þrátt fyrir að Árni Björn gegndi mörgum trúnaðar- og ábyrgðarstörfum, var hann ávallt hógvær og lítillátur, enda var viðmót hans og dagfar afar hlýtt og opið.
Árni Björn var um áratugaskeið einn af lykilmönnum í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur. Árni Björn sat í árnefndum Stangaveiðifélagsins í hartnær þrjá áratugi. Hann tók fyrst sæti í árnefnd Hítarár árið 1993 og sat í nefndinni allt til ársins 2018. Þá tók Árni Björn jafnframt sæti í árnefnd urriðasvæðanna í Laxá í Þing, þ.e. Í Mývatnssveit og Laxárdal í ársbyrjun 2009. Var Laxárdalurinn honum sérstaklega hugleikinn enda lýsti hann veiði í Laxárdalnum sem ,,ævintýraheimi“ sem margir veiðimenn hefðu ekki hugmynd um að væri til. Laxárdalurinn býður enda upp á einstaka umgjörð um menn og fiska. Sat Árni Björn í árnefndinni á urriðasvæðunum allt til dánardags. Árni Björn var auk þess skoðunarmaður reikninga fyrir Stangaveiðifélagið um árabil. Þau voru raunar mörg fleiri verkin sem hann vann fyrir félagið enda var Árni Björn ávallt reiðubúinn að koma til skrafs og ráðagerðar þegar þörf var á. Á árinu 2012 var Árni Björn sæmdur silfurmerki félagsins fyrir ómetanleg störf í þágu þess.
Við félagar í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur getum í raun aldrei fullþakkað Árna Birni hið mikla og fórnfúsa starf sem hann vann í þágu félagsins. Samfélag stangaveiðimanna er fátækara við fráfall Árna Björns. Við minnumst hans sem einstaks félaga, náttúruunnanda og ljúfmennis. Við kveðjum Árna Björn Jónasson með virðingu og þakklæti og óskum honum velfarnaðar og guðsblessunar á veiðilöndunum fyrir handan. Við kveðjum Árna Björn með ljóðlínum Einars Georgs Einarssonar um ánna í hrauninu;
Í bláum draumi hún unir ein
með ærslum leikur á strengi og flúðir
og glettin skvettir á gráan stein
í hyl og lygnu er hægt á ferð
með hæverskum þokka
áin niðar sí-endurfædd og undraverð
hún fremur þá list sem fegurst er
úr fornum eldi er hljómbotn gerður
ég heyri óminn í hjarta mér
ég heyri óminn í hjarta mér.
Stangaveiðifélag Reykjavíkur sendir fjölskyldu Árna Björns innilegar samúðarkveðjur.
Jón Þór Ólason
formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur