Laxveiðin 2022

Laxveiðitímabilið er á enda og þegar horft er til baka hefur veiðin oft verið betri en flest ársvæði SVFR skiluðu þó fleiri löxum heldur en í fyrra.

Hér förum við létt yfir ársvæðin og berum saman lokatölur frá því í fyrra.

Andakílsá
Lokatölur í ár 349 (514 í fyrra).
Minni veiði milli ára en samt sem áður góð veiði á tvær stangir! Vorið 2021 var sleppt 20.000 seiðum í Andakílsá samanborið við 30.000 seiði sem sleppt var 2020. Ef borin er saman veiði á móti sleppingum seiða er veiðin í ár um það bil á pari við veiðina árið 2021.

Elliðaár
Lokatölur í ár 798 (618 í fyrra).
180 laxa bæting frá því í fyrra. Þetta er mjög góð veiði á 4-6 stangir, Elliðaárnar voru fullar af laxi í sumar og var hann mjög dreifður um svæðið.

Flekkudalsá
Lokatölur 112
Talsvert líf en lítil taka, þetta heyrðum við frá þónokkrum sem voru í Flekkunni í ár.

Gljúfurá í Borgarfirði
Lokatölur  261 (244 í fyrra).
Bæting frá því í fyrra, í ár var gott vatn í ánni og jöfn veiði yfir tímabilið.

Haukadalsá
Lokatölur eru 366 (447 í fyrra).
Ekki besta árið í Haukadalsá og er lækkun á veiðinni frá því í fyrra, minni veiði var í fleiri ársvæðum í Dalasýslu en var í fyrra.

Korpa
Lokatölur eru 213 (208 í fyrra).
Gott ár að baki í Korpu og var veiðin góð á stangirnar tvær, fiskurinn var vel dreifður um svæðið og seinni hluta tímabilsins voru menn varir við þónokkuð líf upp við Hafravatn. Eins og síðustu ár var góð sjóbirtingsveiði í Korpu og boðar það gott fyrir vorveiðina.

Langá
Lokatölur eru 1077 (832 í fyrra).
Mikið er gott að sjá Langá fara í fjögurra stafa tölu en góð veiði var í Langá í sumar og erum við mjög glöð með þessa bætingu. Veiðin var góð fram á síðasta dag og hafði fiskurinn verið vel dreifður um svæðið allt tímabilið.

Laugardalsá
Lokatölur eru 92 (111 í fyrra).
Ekki frábært sumar að baki í Laugardalsánni, margir sem fóru töluðu um að það væri meira af fiski á svæðinu heldur en í fyrra en verulega tregur til töku. Silungsveiðin hefur verið til fyrirmyndar síðustu ár og hefur urriðinn stækkað mikið.

Leirvogsá
Lokatölur eru 455 (279 í fyrra).
Frábært sumar að baki í Leirvogsá, áin var gjörsamlega full af laxi frá opnun og öll svæði komu sterk inn. Eins og síðustu ár var mesta veiðin á neðri svæðunum. Þegar leið á tímabilið dreifðist veiðin og í lokin var mesta lífið í gljúfrinu fyrir neðan Tröllafoss.

Miðá
Lokatölur eru 134 (170 í fyrra)
Aðeins slakari veiði heldur en í fyrra en það er í takt við aðrar ár í kring. Einnig veiddust 144 bleikjur.

Sandá
Lokatölur eru 372 (173 í fyrra)
Sandá stóð sig með prýði í ár, 372 laxar á 4 stangir er mjög góð veiði og umtalsverð bæting frá því í fyrra. Sandá stendur undir nafni sem stórlaxaá og komu margir stórir á land í sumar. Sá stærsti var 97cm!

Þverá í Haukadal
Lokatölur eru 13 (38 í fyrra)
Minni veiði í fyrra en einnig verri skráning í veiðibók og líkt og með Haukadalsá var veiðin talsvert minni í ár heldur en í fyrra. Þveráin heldur ennþá gildi sínu sem ævintýrasvæði fluguveiðimannsins, langt labb um eyðidal þar sem þú ert einn í heiminum.

Við minnum á að enn er hægt að senda inn endurbókanir fyrir næsta ár, hér getið þið endurbókað. 

Fyrir þá sem vilja ennþá bleyta færi þá er Varmá opin til 20. október en ágæt veiði hefur verið undanfarna daga. Lausa daga má sjá hér.

By SVFR ritstjórn Fréttir