Laxinn mættur í Elliðaárnar
Tveir laxar sáust í Sjávarfossinum í Elliðaánum í morgun. Þar með er staðfest að fyrstu göngurnar eru komnar. Eins og oft áður þá var það Ásgeir Heiðar leiðsögumaður sem kom auga á fyrstu laxa sumarsins. Fékk hann undirritaðan, til þess að kíkja í fossinn með sér og jú, við blöstu tveir silfurbjartir laxar (hægt er að sjá myndband af sem bar fyrir sjónum hér)
Fyrstu laxarnir í fyrra mættu á svipuðum tíma í árnar en þess ber þó að geta að afar óalgengt er að fyrstu laxarnir Elliðaánum sjáist í maí.
Fiskifræðingar Guðni Guðbergsson og Sigurður Már Einarsson eru sammála um að laxagengd verði um eða yfir meðallagi í sumar enda er nú að skila sér lax úr hrygningunni frá 2015, sem var stórgott laxveiðiár en þá veiddust tæplega 72 þúsund laxar í íslenskum ám. Haldist veiðin í hendur við þessa spá fiskifræðinganna gætu íslenskir veiðimenn upplifað flott laxveiðisumar en meðalveiði í íslenskum laxveiðiám frá aldamótum er um 50 þúsund laxar.
Við eigum lausa daga í Elliðaánum júní og júlí á vefsölunni – www.svfr.is/vefsala