Við fengum innsenda grein frá Þorgils Helagsyni sem var með félögum sínum fyrir norðan í byrjun júní, við gefum Þorgils orðið:
Síðastliðin sjö ár hefur það verið fastur liður hjá stórum hópi manna að veiða Laxá í Mývatnssveit dagana 4-7 júní. Dagsetningin er löngu orðin flestum heilög en þeir naga á sér handabökin þeir örfáu sem gleyma sér og halda að það sé í lagi fyrir sálartetrið sitt að sleppa þessari hásléttu andans. Það hefur sannast ár eftir ár að þarna hlaða menn sannarlega batteríinu best í samvistum við sprettharða urriða í ógnarfagri náttúru. Til að bæta björtu ofan á bjart þá hefur skapast svo ótrúlega góður andi í hópnum að leitun er að öðru eins. 28 manns allir með það að markmiði að njóta sín og sigra nýja veiðistaði í þessari urriða Paradís. Veiðiferðin 2018 gekk vel eins og vant er orðið. Allir fengu flotta fiska og slatta af þeim. Stórgóð byrjun á veiðitímabilinu.
Nokkrir hermenn úr hópnum þjófstörtuðu ferðinni með opnun í Svartá í Báðardal. Þeir voru þó ekki allir komnir með nóg og því héldum við á neðra svæðið í Laxá – Laxárdalinn.
Eftir hádegisflatböku í Dalakofanum renndu við í hlað á Rauðhólum. Þangað er gott að koma, algjör kyrrð og rólegheit enda á þar engin leið um nema kindur og fuglar. Ásamt veiðimönnum að sjálfsögðu.
Fyrsta kvöldið í Dalnum plöntuðum við okkur við Djúpadrátt. Þar hljóp snemma á færið því strax í þriðja kasti settum við í fisk sem við lönduðum. Það var dásamlegt að sitja á bakkanum með ljúfa tónlist, spjalla við félagana og pikka upp einn og einn fisk. Eins og Sigþór komst eftirminnilega að orði þá var aðeins einn hængur á þessari kvöldstund. “Það er ekki stundarfriður fyrir fiski”.
Daginn eftir vöknuðum við með seinni skipunum og dóluðum okkur upp að Varastaðahólma. Það er svakalega fallegur og veiðilegur strengur ofarlega í Laxárdalnum. Við vorum ekki lengi að koma okkur á blað þar heldur. Settum í og lönduðum fallegum fiskum. Þar á meðal 66 cm fiski sem skilaði mér tómhentum í land 50-100 metrum fyrir neðan flúðirnar neðan Varastaðahólma. Muna að setjast bara og bíða eftir að fæturnir finna jörðina aftur. Eftir Varastaðahólma kíktum við á flotta staði við Auðnuhólma og Nauteyri án þess að finna fiska.
Eftir hádegi prófuðum við nokkra fleiri staði, nutum náttúrunnar og þess að prófa nýja veiðistaði. Þegar í hús var komið sögðu veiðimennirnir á hinum stönginni okkur frá fantaveiði sinni í Ferjuflóa. Það var frábært að skoða Dalinn og þarna verður gott að koma síendurtekið til að læra betur á svæðið.