Brjálað að gera
Þessa dagana er brjálað að gera hér á skrifstofunni. Nýtt ársvæði komið til okkar, við erum á fullu að reyna að auka framboð veiðileyfa fyrir ykkur kæru félagsmenn, undirbúningur fyrir úthlutun, opið hús, söluskrá og jólahefti Veiðimannsins er í fullum gangi sem og forsala veiðileyfa fyrir næsta ár í blússandi gír. Þar sem við erum nú bara tveir á skrifstofunni þá hefur fréttaflutningur verið með minnsta móti undanfarið en vonandi fer það að lagast.
Jólin nálgast – tilkynningar um breytt heimilisföng
Og í þeim aðdraganda förum við að senda ykkur ýmislegt heim og þess vegna viljum við biðja ykkur sem fluttuð lögheimili á árinu að senda okkur línu á [email protected] og láta okkur vita af breyttu heimilisfangi. Það mun spara okkur bæði tíma og peninga. Eins biðjum við þá sem eru skráðir félagsmenn en eru ekki að fá tölvupósta frá okkur (af póstlistanum) að láta okkur vita af því svo við getum uppfært skráningar.
Forsalan í fullum gangi
Það hefur aðeins borið á misskilningi meðal félagsmanna um framkvæmd forsölunnar. Forsalan er öllum opin og sérstaklega félagsmönnum. Allir félagsmenn hafa tækifæri til að sækja um alla þá daga sem eru í boði í forsölunni og hvetjum við alla til að gera það sem fyrst. Við tökum öll urriðasvæðin fyrir norðan út úr úthlutun og þar geta allir félagsmenn sótt um hvað sem þeir vilja án þess að nota til þess ABCD… umsóknir sínar. Hið sama gildir um ákveðin tímabil í Langá, Hítará, Haukadalsá, Straumfjarðará og Varmá. Hafir þú áhuga á veiðileyfum í þessum ám á næsta ári endilega sendu póst á [email protected] og við skoðum hvað er í boði.
Breytingar á vatnasvæðum og reglum
Það verða heilmiklar breytingar fyrir næsta ár, veiðisvæði sem detta út, önnur sem koma inn og breyttar reglur eða fyrirkomulag á einhverjum svæðum. Við munum taka það sérstaklega fyrir á næstunni og kynna allar þær breytingar sérstaklega.
Óskum eftir fólki í skemmtinefnd
Við munum nýta veturinn til að hrista upp í nefndum innan félagsins og munum auglýsa eftir fólki til þeirra starfa fyrir sumarið. En nú auglýsum við fyrst eftir fólki til að manna skemmtinefnd SVFR. Skemmtinefndin sér um skipulag og framkvæmd skemmtiviðburða á vegum SVFR eins og Opnu Húsin vinsælu. Við hvetjum alla áhugasama að senda tölvupóst á [email protected]