Langþráður fréttapakki

Nú er alltof langt um liðið síðan við höfum tekið stöðuna í ánum okkar og miðlað þeim upplýsingum til ykkar kæru félagsmenn. Nú í morgunsárið höfum við hringt í þá sem hafa verið við veiðar undanfarið og falast eftir fréttum en ekki alltaf haft erindi sem erfiði. Hér eru þó þær fréttir sem við höfum náð að krunka að okkur.

Efri – Flókadalsá

Það hefur verið ágætis gangur þar og við heyrum af stórum bleikjum. Rúmlega 80 bleikjur hafa verið færðar til bókar og einhverjir hafa slysast í laxa en þó hafa þeir ekki náðst á land enn og skyldi engan undra þegar verið er að egna fyrir bleikju. Nánast engin ástundun var í ánni í júní en fullselt hefur verið í júlí. Áin er uppseld fram í byrjun september en þá er hægt að ná sér í nokkur holl. Sjá Efri- Flókadalsá í Vefsölunni

Grjótá – Tálmi

Eftir alveg rosalega rólega og daprar göngur virtist það loksins gerast að kvöldi 11. júlí að slangur af fiski gekk upp í ána. Þegar veiðimenn komu á bakkann að morgni 12. júlí var töluvert komið af fiski í ána og þeir gerðu gott mót, lönduðu silfurbjörtum löxum. Fiskurinn virðist hafa gengið þokkalega langt upp ána og sögðu þeir að mikið af fiski væri komið upp í gilin. Það stemmir við fjörið sem varð í Hítará að kvöldi 11. júlí og að morgni 12. júlí og er það eindregin von okkar að þessi gleði haldi áfram. Við eigum enn lausan einn stakan dag í Grjótá – Tálma þann 13. september. Hægt er að bóka á Vefsölunni. Uppfært: Vorum að fá til endursölu hollið 29. – 31. júlí. Verðið er 198.000 fyrir 2 stangir í 2 daga. Áhugasamir hafi samband við [email protected]

Gljúfurá

Það er ennþá nokkuð rólegt í Gljúfurá og teljarinn segir að 200 laxar séu gengnir í ána. Við heyrðum í einum sem var að veiða á dögunum og þeir náðu 3 löxum á fluguna en eitthvað meira á maðkinn. Í dag er spáð stormi með töluverðri úrkomu á svæðinu og það ætti að hleypa lífi í fiskinn og vonandi hressa við göngur í ána. Við eigum tvö holl laus í Gljúfurá í september. Hægt er að skoða og bóka þau holl í Vefsölunni.

Hítará

Þar er veiðin að glæðast eftir rólega byrjun en þeir veiðimenn sem voru við veiðar á staka deginum sem við auglýstum til sölu nýverið lönduðu 21 laxi á 5 stangir á þessum tveimur vöktum. Talsvert meira af fiski var greinilega að ganga en dagana á undan en það var greinilegt að frá 11. júlí gekk talsvert af fiski í ána.

 

Látum þetta gott heita í bili en við minnum á að annað kvöld verða birtar nýjar tölur úr topp 75 ánum á Íslandi á vef Angling.is

By admin Fréttir